Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Side 69
girðingarræksnið sem engin viðgerð fær bjargað, eða við lóðarblett-
inn tilheyrandi þessum gamla kumbalda sem ekki er annað en fáeinir
hellulagðir fermetrar rétt mátulegir fyrir sorpílátin. Eini gróðurinn
þessi ófrýnilegi brúskur af heimullunjóla, sem tekst að þrauka í skjóli
af hliðstólpanum.
Og aftur finn ég ilm liðinna vordaga frá jörð sem eitt sinn var mín.
Eða var það ég sem var hennar?
Skikinn hans pabba, jörð forfeðra minna, kannski magur og rýr, en
samt jörð, mold, gróður sem við yrktum kynslóð fram af kynslóð.
Þessi örsmái blettur í alheimnum sem var heima.
Við bjuggum þar líka, maðurinn sem nú er einungis rödd í síma og
ég; byggðum okkur hús, sem nú er sumarskjól efnaðra sportveiði-
manna, og ég átti mér garð í skjóli við þetta hús. Garð með blómum,
með matjurtum, kartöflum.
Og við ólum jörðinni okkar þrjú börn. Eitt heimti hún af okkur
aftur og eftir það varð ekkert eins. Afgjald jarðarinnar reyndist of hátt;
moldin of dýru verði goldin.
— Þú gast ekki gætt hans, gast ekki tekið ábyrgð á þínu eigin barni,
gast ekki — gast ekki...
Dáinn varð hann mitt barn; ekki okkar. Lögmál lífs og moldar varð
okkur ofviða, og nú þræði ég steyptar stéttir með börnum, sem voru
fædd grasi og gróðri og berst við ásókn drauga: elskhugann, sem eitt
sinn var hluti af sjálfri mér næstum eins og höndin sem heldur á
kaffíbollanum, en er orðinn þessi þreytta, gremjuþrungna rödd úr
fjarlægð; hryggðina í augum föður míns þegar ég kvaddi hann síðasta
sinn á blettinum heima. Gamla sjalið sem mamma geymir inni í skáp
ásamt skírnarkjólnum mínum, sem hún saumaði úr tveimur silkiklút-
um — síðustu gripunum frá því sem hún kallaði ungpíudaga sína.
Keyptir fyrir rýr vinnukonulaun hennar til að punta sig með þegar
þau voru í tilhugalífmu, sagði hún og óvæntur glampi í augunum,—
auðvitað saumaði hún skírnarkjólinn minn úr skarti æsku sinnar, því
þau voru fátæk og það var kreppa. Allt skammtað og kerfíð gerði ekki
ráð fyrir skírnarkjólum á börn fátæklinga. Engir skömmtunarmiðar
fyrir slíku.
Pabbi og mamma. Hvernig gætu þau nokkru sinni skilið ... ? Og
hvernig gæti ég útskýrt fýrir þeim það sem enginn ætti nokkru sinni
að þurfa að útskýra?
TMM 1995:2
63