Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Side 93
eða aðrar listgreinar. Þessar hliðstæður eru að hans mati markaðskapítal-
ismi/raunsæi (18. og 19. öld), einokunarkapítalismi og heimsvalda-
stefna/módernismi (síðari hluti 19. aldar og íyrri hluti 20. aldar) og
yfirþjóðlegur kapítalismi/postmódernismi (síðari hluti 20. aldar).
Samkvæmt þessum hugmyndum á það, sem kallað er postmódernismi,
ekkert skylt við hugtakið stíl í hefðbundinni notkun þess orðs, heldur er það
bundið við ástand, sem tengist því stigi kapítalískra framleiðsluhátta, sem
við búum nú við í hinum tækniþróaða heimi. Þessir framleiðsluhættir hafa
ekki aðeins beina efnahagslega þýðingu, heldur hafa þeir haft mótandi áhrif
á menningarlegt umhverfi okkar og máð út viðmið sem áður þóttu sjálfsagð-
ir hornsteinar í daglegri tilveru. Eitt þessara viðmiða er sjálft þjóðríkið.
Annað varðar íjarlægðir í tíma og rúmi, sem hafa breyst með breyttum
samgöngum og breyttri samskipta- og upplýsingatækni. Þriðja viðmiðið
varðar hugmyndir okkar um notagildi og skiptagildi, þar sem gildismatið
hefúr færst frá hlutnum sjálfum yfir á ímynd hans eins og hún birtist okkur
í sjónvarpinu og íjölmiðlaheiminum. Heimurinn hefur þannig orðið að eins
konar allsherjar markaðstorgi ímynda sem byggja á líkingu við veruleikann
(sýndarveruleika) án þess að veita okkur aðgang að beinni snertingu og
áþreifanlegu notagildi í hefðbundnari skilningi. Samhliða færist þungamiðja
efnahagslífsins frá beinni frumframleiðslu yfir í þjónustu, upplýsinga- og
áróðursmiðlun og umfram allt síaukna neyslu varnings og ímynda. Þetta eru
allt staðreyndir, sem hafa sínar slæmu og sínar góðu hliðar. Þær eru hluti af
altæku framleiðslu- og samskiptaneti, sem á sér engin landamæri og nær
einnig til innstu vitundar okkar sjálfra og þess tungumáls, sem við tölum.
Það er ekki bara vinna mannsins sem hefur verið hlutgerð (eins og Marx
sagði), heldur líka náttúran og vitund okkar og tungumálið sem við tölum
og tjáum okkur með í myndum. Það er þetta tungumál, sem talar til okkar
í myndverkum málarans Errós. Þess vegna málar hann tungumálið eins og
það sé hvert annað landslag í huga okkar eða vitund. Imyndir Errós hafa
slitið öll tengsl bæði við höfund sinn og fyrirmyndir. Þær hafa öðlast
sjálfstæða tilvist og talast við innbyrðis í heimi sem stendur utan alls annars
veruleika en veruleika tungumálsins sjálfs. Þannig eru myndir hans hvort
tveggja í senn innihaldslausar og sjálfum sér samkvæmar.
Ekki er óeðlilegt að spurt sé, hvort framsetning þessa firrta veruleika
tungumálsins, þar sem tengslin við höfundinn og fyrirmyndina hafa verið
rofin, hafi eitthvert frelsandi eða uppbyggilegt gildi. I hverju er gildi þessara
verka fólgið, úr því þau hafa hvorki beina skírskotun til hinnar persónulegu
tjáningar höfundarins né til hins ytri veruleika?
Þetta er auðvitað kjarnaspurning, og við slíkum spurningum fæst sjaldn-
ast einhlítt svar.
TMM 1995:2
87