Tímarit Máls og menningar - 01.06.1995, Blaðsíða 94
Við getum þó byrjað á að nefna það, að hið ópersónulega myndmál Errós
er eins konar staðfesting á fyrirbæri, sem ekki bara einkennir samtíma okkar,
heldur varðar líka skilning okkar sjálfra á þeim samfélagsveruleika, sem við
erum þátttakendur í upp á gott og illt. Þetta fyrirbæri er upplausn og
sundrung þess tungumáls, sem við notum til að gera okkur mynd af sjálfum
okkur og stöðu okkar í heiminum.
Með því að endurvarpa þessu sundraða myndflæði á léreftið og endurgera
það í sífellu í sinni íjölbreytilegu einhæfni og sinni merkingarlausu merkingu
er Erró að endurspegla heimsmynd, þar sem hinn frumlegi og heilsteypti
maður er smám saman að hverfa inn í það nafnleysi og tímaleysi, sem ríkir
á bak við hina kyrrstæðu og þöglu ímynd eða helgimynd goðsögunnar um
tungumálið. Það er freistandi að sjá í þessu nafnleysi líkingu eða hliðstæðu
við það nafnleysi og tímaleysi, sem lesa má úr helgimyndum miðalda.
Við getum þannig séð í myndum Errós vissa samlíkingu við framtíðarsýn
franska heimspekingsins Michel Foucaults, eins og hann setur hana fram í
lok bókarinnar Les mots et les choses. Þar er sett fram sú tilgáta, að maðurinn
í þeirri mynd sem við þekkjum hann, og þær fræðigreinar sem maðurinn
hefur jafnframt gert um sjálfan sig, hafi verið uppfmning, er átt hafi sitt
tilvistarskeið á tímabili milli tveggja tungumálahátta (eða tveggja aðferða við
það að tjá veruleikann í myndmáli). Maðurinn í þessum skilningi varð ekki
til, segir Foucault, fyrr en tungumálið fékk það hlutverk að búa til mynd af
heiminum og manninum sjálfum á hlutlægan hátt. Þetta leiddi til upplausn-
ar tungumálsins: „maðurinn gerði sér mynd sína í glufum þessa brotakennda
tungumáls... Úrþví að maðurinn varð til á tíma, þegar tungumálið var dœmt
til upplausnar, mun hann þá ekki hverfa þegar tungumálið endurheimtir
einingu sína?“*
Það má lesa út úr þessari spurningu Foucaults vissa heimsendaspá eða spá
um endurkomu Guðs í líki þeirrar persónulausu og tímalausu grímu, sem
við sjáum til dæmis á býsanskri helgimynd: „andlit mannsins brestur í hlátur
og gríman hefur innreið sína. Við sjáum upplausn þess tímastraums, sem
maðurinnfann sig berast með ogsem hann trúði að œtti uppruna sinn í veru
hlutanna. Endurkoma Hins Sama jafngildir fullkominni upplausn
mannsins.“*
Spurning Foucaults varðar framtíðina, þar sem hann sér fyrir sér í hill-
ingum „nýja guði, sem jafnframt eru hinir gömlu guðir', og „eru þegar teknir
að taka á sig mynd á Úthafi framtíðarinnar".*
Myndheimur Errós sýnir okkur ekki framtíðina. Myndmál hans hefur
ekki „endurheimt einingu sína“* í ímynd hinnar nafnlausu og tímalausu
grímu. En samkvæmt skilningi Foucaults er „Endurkoma Hins Sama“ og
„endurheimt einingar tungumálsins" fólgin í því að tungumálið öðlist á ný
88
TMM 1995:2