Tímarit Máls og menningar - 01.03.2000, Page 70
RÓBERT H. HARALDSSON
siðferðilegu ljósi samfélagsins. Þessi samræða á sér stað í lokauppgjöri Nóru
og Helmers og má með sönnu segja að hún sé hápunktur verksins. Helmer
hefur loksins lesið bréfið ff á Krogstad og veit nú allt um leyndarmál Nóru og
fölsuðu undirskriftina. Hann æðir að Nóru og spyr hana:
Satt! Er það satt sem hann skrifar? Hræðilegt! Nei, nei; það er óhugs-
andi að þetta geti verið satt. (196)
Svar Nóru kann að koma lesandanum í opna skjöldu og hann þarf dálida
stund til að átta sig á því. Hún segir:
Það er satt. Ég hef elskað þig heitar en allt annað í heiminum. (196)
Hafi lesandinn ekki veitt athygli þeirri samræðu á bak við samræðuna sem
átt hefur sér stað í verkinu fram að þessu, hlýtur hann að skoða svar Nóru
sem afsökun, tilraun hennar til að réttlæta athæfi sitt. Þá liggur beint við að
lesa orð hennar eitthvað á þessa leið: „Já, þetta er því miður satt en ég gerði
það vegna þess að ég elskaði þig heitar en allt annað í heiminum. Það var mín
afsökun." En þetta er mjög „móralskur“ lestur sem einungis sér yfirborðið
og getur á þessari stundu ekki ímyndað sér annað en viðbrögð samfélagsins
við athæfi Nóru. En Nóra er ekki með hugann við viðbrögð samfélagsins,
refsivönd siðferðisins.29 í hennar augum hefur Helmer loksins fengið
áþreifanlega staðfestingu á ást hennar. Við megum ekki gleyma því að Hel-
mer er nýbúinn að lýsa því yfir að hann sé maður til að taka allt á sig, hætta
öllu fyrir Nóru.
Viðbrögð Helmers eru hins vegar í fullkomnu samræmi við móralskan
lestur á orðum Nóru.
O, reyndu ekki að vera með asnaleg undanbrögð. (196)30
Næstu augnablik í samræðunni sýna svo ekki verður um villst hvernig Nóra
og Helmer tala í kross:
NÓRA eitt skref í átt til hans: Torvald -!
HELMER: Þú vesæl manneskja - hvað hefurðu gert!
NÓRA: Leyfðu mér að fara. Þú átt ekki að gjalda mín. Þú átt ekki að
taka mína sök á þínar herðar. (197)
Síðan rennur að fullu upp fyrir Nóru hvaða augum Helmer lítur athæfi
hennar og að hún þurfi beinlínis að afsaka það.
HELMER: Engin látalæti. [...] Þú verður hér kyrr og stendur fýrir
máli þínu. Skilurðu hvað þú hefur gert? Svaraðu mér! Skilurðu það?
60
www.malogmenning.is
TMM 2000:1