Dagblaðið Vísir - DV - 23.04.2010, Page 41

Dagblaðið Vísir - DV - 23.04.2010, Page 41
VIÐTAL 23. apríl 2010 FÖSTUDAGUR 41 Sá sem ekki hefur heyrt minnst á karla-kórinn Fjallabræður hefur líklega held-ur ekki heyrt af efnahagshruninu. Nafn kórsins hefur heyrst endurtekið í fjöl- miðlum síðustu misseri, þó líklega ekki jafnoft og orðið „hrun“ eða „kreppa“, en tilefnið er ávallt ívið skemmtilegra. Engin skýrsla er væntanleg um kórinn sem tilraun til að varpa ljósi á hver sé ábyrgur fyrir honum. Það er allt uppi á borðum. Sökudólgurinn er tæplega þrítugur Flateyr- ingur, Halldór Gunnar Pálsson, sem dreif sig suð- ur til Reykjavíkur til að hefja gítarnám fyrir nokkr- um árum. Eftir að hafa flosnað upp úr náminu sökum anna við vinnu, meðal annars akstur ban- anabíls, kennslu og framkvæmdastjórn hjá Skíf- unni, einbeitir hann sér nú alfarið að kórstjórn- inni. Sem hann segist reyndar ekki kunna neitt í – eða hér um bil. Hann hafi lært smátt og smátt inn á þetta á þeim tæpu fjórum árum sem liðin eru frá því kórinn varð til. 100 TÓNLEIKAR Á TVEIMUR ÁRUM Fyrstu tvö árin segir Halldór þó lítið hafa gerst. Stóra „breikið“ hafi eiginlega verið tónleikarnir á Miklatúni í tengslum við Menningarnótt í ágúst 2008. „Síðan þá erum við búnir að syngja hátt í hundrað sinnum. Það er helvíti mikið fyrir nýja hljómsveit. Ég sagði þetta við strákana um dag- inn og þeir trúðu þessu varla.“ Kórinn hefur jafnvel tekið þrjú „gigg“ sama kvöldið og efast Halldór um að margir karlakór- ar geri það. Stundum fá þeir borgað og stund- um ekki. „Við erum til dæmis búnir að ákveða að syngja á öllum elli- og hjúkrunarheimilum fyr- ir aldraða og við gerum það auðvitað frítt,“ segir Halldór. „En ef einhver biður okkur um að koma að syngja af einhverju tilefni þá kostar það eitt- hvað eins og eðlilegt er.“ Þegar blaðamaður spjallaði við Halldór á dög- unum, í þrjú hundruð fermetra æfingahúsnæð- inu þeirra við Bæjarlind í Kópavogi sem áður hýsti fasteignasöluna Remax Lind, höfðu Fjalla- bræður einungis haldið eina tónleika frá stofnun. Það voru útgáfutónleikar í tilefni útkomu plötu sem ber nafn kórsins og kom út skömmu fyrir síðustu jól. Tónleikar númer tvö voru svo fyrir- hugaðir í Salnum í Kópavogi í gær, sumardaginn fyrsta. Útgáfutónleikarnir fóru fram fyrir framan þúsund manns í Háskólabíói. „Það var geðveikt,“ segir Halldór og brosir með öllu andlitinu. „En það er auðvelt að halda það stóra tónleika þegar margir eru í hljómsveitinni og hver og einn á ætt- ingja og vini sem vilja koma og sjá hvað viðkom- andi er að gera.“ VARÐ TIL Í AFMÆLI KÓRSTJÓRANS Þó er það langt frá því að vera mesti fjöldi sem kórinn hefur sungið fyrir. „Bræðurnir“ sungu til að mynda á hátíðinni sem skellt var upp í mið- bæ Reykjavíkur til að fagna heimkomu íslenska handboltalandsliðsins eftir silfurævintýrið í Pek- ing fyrir bráðum tveimur árum. Þar voru tugþús- undir samankomnar. Heimsbyggðin öll hafði svo möguleika á að hlýða á piltana í desember síðast- liðnum þegar þeir tóku þátt fyrir hönd Íslands í alþjóðlegu tónlistarverkefni þar sem þátttakend- ur frá öllum löndum heimsins sameinuðust við söng á Bítlalaginu All You Need Is Love í beinni útsendingu á netinu. Halldór segir eiginlega tvær sögur til af því hvernig kórinn varð til. Önnur á rætur í 25 ára af- mæli kórstjórans árið 2006. „Afmælið var haldið heima hjá mömmu í Skagafirðinum og var Georg Rúnar, vinur minn, búinn að lofa mér karlakórnum Heimi sem skemmtiatriði,“ segir Halldór en sá kór er elsti karlakór á landinu og er úr Skagafirði. „Þeir voru hins vegar uppteknir þannig að Goggi kallaði á vinahópinn upp á svið þar sem þeir tóku tvö lög. Þetta var alveg flott hjá þeim, en þeir voru samt alveg glataðir, kunnu ekki einu sinni textann al- mennilega,“ segir Halldór og hlær. Ekki löngu síðar byrjaði Halldór að semja tónlist með vini sínum og frænda, Ásgeiri Andra Guðmundssyni, og áður en þeir vissu af voru þeir komnir með um tuttugu lög. Þeir ákváðu að taka þau upp, fengu eldri bróður Halldórs, sem rek- ur stúdíó á Flateyri, suður til að aðstoða þá, en svo rann upp fyrir þeim svolítið mikilvægt atriði – hver ætti að syngja lögin? Hvorki Halldór né Ásgeir töldu sig nógu frambærilega í söngnum sem endaði með því að Halldóri varð hugsað til vina sinna og stakk upp á að þeir fengju bara kór í þetta. Nánar tiltekið, kór sem myndaður yrði af vinum hans, jafnvel þótt þeir hefðu ekkert staðið sig glimrandi vel í afmælinu. „Ásgeir og Önni bróðir samþykktu það og þá var bara keyrt á þetta. Ég hringdi í strákana á fimmtudegi, það var æft á föstudegi og tekið upp á laugardegi. Og náttúrlega djammað aðeins á milli og gæði plötunnar voru eftir því,“ segir Hall- dór um leið og hlátur brýst fram. „En okkur þykir mjög vænt um þá plötu. Það eru líka tvö eða þrjú lög af henni á nýju plötunni þar sem þau voru ekki mikið meira en hugmynd þegar þau voru sett á fyrstu plötuna.“ VORU KOKTEILBANDIÐ Á ÁRSHÁTÍÐ LANDSBANKANS 2007 Ellefu kappar voru í þessari fyrstu „útgáfu“ af Fjallabræðrum en í dag er það um fjörutíu manna kjarni sem myndar kórinn. Stundum fer fjöldinn upp í nokkuð meira, til dæmis voru þeir sextíu og þrír á útgáfutónleikunum í desember. Kunnugleg tala fyrir þeim sem hafa áhuga á pólitík. Oft hefur það verið þannig á hinu stutta ævi- skeiði kórsins að nýir meðlimir eru að debútera fyrir framan stóran áheyrendaskara. Til dæmis á giggi sem Halldór segir hafa eiginlega hleypt ævintýrinu af stað fyrir alvöru. Þetta var árshátíð Landsbankans á því auðherrans ári 2007. „Þetta var í Egilshöll fyrir framan 3000 manns! Svolítið spes en um leið mjög gaman,“ segir Halldór kankvís. „Það er ekkert grín að fá okk- ur í heimsókn – við erum fjörutíu karlar, tveir trommuleikarar, fiðluleikari, munnhörpuleik- ari, rafmagnsgítar, orgel og mikið af tækjum – og við vorum samt bara kokteilbandið á árshátíð- inni,“ segir hann og hlær. „Þetta er kannski eitt af því sem er til marks um fáránleikann sem var í gangi 2007. Við vorum í anddyrinu þar sem var reist sér svið og sett upp sér hljóðkerfi fyrir okk- ur. Menn voru flestir skjálfandi og adrenalínið á fullu. Þarna vissi enginn hverjir við vorum, all- ir gestirnir í sínu fínasta pússi og svo mæta bara einhverjir öskrandi sveitamenn. Fólk var bara: „Hvaða djók er þetta?“ En upp úr þessu komu fleiri gigg og boltinn var byrjaður að rúlla.“ OF FALSKIR Þrátt fyrir vinsældir Fjallabræðra segir Halldór að gæði kórsins „sönglega“ séu ekki alveg í topp- klassa. „Við höfum aldrei sagt að við séum góður kór sönglega. Þarna eru menn sem hafa aldrei sung- ið, en líka menn sem hafa sungið mikið. Og ég hafði aldrei áður stjórnað kór og veit lítið um hvernig best er að láta það ganga fyrir sig. Við gerum þetta því bara eins og okkur sýnist. En við erum búnir að æfa mikið og syngja mikið þannig að við erum að verða helvíti góðir.“ Hefurðu lent í því á tónleikum að hugsa: „Þetta er ekki að ganga upp, við erum þvílíkt falskir!“? „Já, já, blessaður vertu – oft! En málið er að við flytjum svo mikið af frumsömdu efni og mörg af þeim lögum eru helvíti kraftmikil, bara rokk og ról. Þá kemur fyrir í mestu látunum að menn fari aðeins út af. Auðvitað hefur mér einhvern tím- ann fundist eitthvað mátt betur fara, en þettta er bara þannig að menn syngja af hjartans lyst. Það er betra að vera falskur og syngja með hjartanu en að vera eitthvað að þykjast og vera ekki falskur. Við gefum bara allt í botn og tök- um sénsinn á að vera falskir. Ef við erum falskir í einhverju lagi reyn- um við bara að bæta fyrir það í næsta lagi.“ FAÐMAST MIKIÐ Félagsskapurinn er líka megintil- gangurinn með kórnum, að sögn Halldórs. Þeir eru með eina fasta æfingu í viku og stundum verð- ur dráttur á að hún geti hafist því menn eru svo mikið að spjalla. Og faðmast. „Faðmlögin eru ekkert plönuð, það bara gerist. Það var líka mjög fyndið þegar við vorum að syngja á árshátíð Landssambands sauðfjár- bænda á dögunum. Þá vorum við ekki búnir að hittast í eina og hálfa viku, sem er heil eilífð fyrir suma í kórnum. Þá leið mjög langur tími áður en ég gat fengið að tala við kórinn því menn voru svo mikið að faðmast.“ Margir í Fjallabræðrum eru líka tengdir blóðböndum. Aðrir hafa verið bestu vinir í áraraðir og flestir eru orðnir hinir nánustu vin- ir eftir að hafa kynnst í kórnum. Afi Halldórs er í kórnum, annar bræðra hans er stundum með en hann býr fyrir vestan, hinn er hljóðmaður kórs- ins og svo á hann þó nokkra frændur í hópnum. KONAN Í HÓPNUM Hefurðu rekið einhvern úr kórnum vegna þess að hann „passaði ekki“ í bræðrahópinn? „Nei, það er enginn rekinn úr Fjallabræðrum. Það er allt í lagi að tala við menn ef þeir eru að gera eitthvað sem er ekki í lagi. En menn eru ekki reknir. Við erum meðal annars í textunum okkar að agítera fyrir því að menn séu umburðarlyndir og réttsýnir, og þá getum við ekki rekið mann fyrir það eitt að okkur finnst hann ekki skemmtilegur. Þá verður þú bara að læra inn á þann mann. Það hefur alveg gerst að menn hafi komið í kórinn sem stuða aðra meðlimi. En svo hálfu ári seinna sérðu þá faðmast.“ Halldór tekur fram að þetta sé ekki bara kór heldur séu piltarnir líka með alveg frábæra hljómsveit. Og þar leynist eini kvenkyns meðlim- ur hópsins. „Það sem gerir þennan kór líka flottan er sú staðreynd að við erum með svona flott band. Unnur Birna, fiðluleikarinn okkar, og krakkarn- ir í bandinu geta ekki alltaf öll verið með því þau eru að spila mjög mikið. Einu sinni gat Unnur ekki mætt á eitt gigg og þá sagði einn í kórnun að það gengi ekki, við yrðum þá að búa til pappa- mynd af henni í fullri stærð. Við gerðum það og tökum myndina núna alltaf með ef Unnur kemst ekki. Það heldur mönnum á tánum að hafa eina konu,“ segir Halldór og brosir lúmskt. DÝR ÞRJÓSKA Eins og kom fram í byrjun yfirgaf Halldór æsku- stöðvarnar á Flateyri til að freista gæfunnar í gítarnámi hjá FÍH, Félagi íslenskra hljómlistar- manna. Sá draumur hafði lengi kraumað innra með honum. „Ég var orðinn 23 eða 24 ára og því svolítið seinn í þessu. Mig hafði alltaf langað til þess, var búinn að eiga bæklinginn frá FÍH frá því ég var fimmtán ára en hélt að ég ætti ekki erindi þang- að.“ Halldór var í tvö ár í náminu áður en hann sagði skilið við það. Ástæðan var mikið vinnuálag sem orsakaðist upphaflega af því að Halldór vildi ekki flytja lögheimili sitt í bæinn þótt það hefði sparað honum hundruð þúsunda. „Sveitarfélögin borga mörg mótframlag fyr- ir hvern nemanda í tónlistarnámi. Reykjavíkur- borg hefði gert það ef ég hefði flutt lögheimilið mitt þangað og þá hefði ég bara þurft að borga hundrað þúsund kall fyrir önnina. Flateyri borg- ar þetta hins vegar ekki, skiljanlega þar sem það er tónlistarskóli þar. En ég er Flateyringur og vildi ekki flytja lögheimilið mitt þaðan bara til að geta borgað minna fyrir tónlistarnám. Þannig að ég fór að múra eins og brjálæðingur og hafði þá auðvitað engan tíma til þess að læra á gítar.“ RANKAÐI VIÐ SÉR Í BANANABÍLNUM Seinna fékk Halldór vinnu við kennslu hjá Gítar- skóla Íslands. „En það var bara vetrarstarf og svo var skólinn búinn, þetta hefur verið vorið 2006, og ég ekki kominn með vinnu. Þá fékk ég „Flat- eyrarsyndrómið“ eins og ég kalla það sem lýsir sér í því að maður verður viðþolslaus ef maður er ekki með vinnu. Þannig að ég hringdi tvö símtöl, fór í viðtal og réð mig sem bananabílstjóra á kort- eri!“ lýsir Halldór og skellihlær. Við svo búið var ekkert annað að gera fyrir Halldór en að vinna sína vinnu á bananabílnum. En einn daginn kom frægt lag í útvarpinu í ban- anabílnum sem af einhverjum ástæðum lét hann staldra við. „Ég hef talað um að lagið sem breytti lífi mínu sé The Bananaboat Song með Harry Belafonte. Ég var einhvern tímann að keyra á bananabílnum, í Chiquita-úlpunni minni, þegar þetta lag kom í útvarpinu. Og sem ég sat þarna í bananaúlpunni þá helltist yfir mig spurningin: „Hvað ertu að gera?“ Eina ástæðan fyrir því að ég kom til Reykjavíkur var til að læra á gítar og svo er ég hérna að vinna við að keyra bananabíl!“ rifjar Halldór upp og hlær á ný. „Með fullri virðingu fyrir þeim sem keyra bananabíla og vinna þá vinnu sem þarf að gera í tengslum við það. Þetta var bara ekki það sem ég ætlaði að gera.“ SAGÐI UPP FRAMKVÆMDA- STJÓRASTARFINU Í kjölfarið sótti Halldór um starf sem auglýst var í Skífunni á Laugavegi. Það var hlutastarf við af- greiðslu og sá hann fyrir sér að geta verið í skólan- um að læra músík, verið að selja músík og kenna músík. „Ég fór að hitta konuna sem sá um að ráða í starfið og var svo æstur í að fá það að það endaði með því að mér var boðið starf verslunarstjóra. Ég þáði það á staðnum, hringdi í bananabossinn og sagði honum að þetta væri búið – ég væri hættur sem bananabílstjóri!“ Halldór var í þrjú ár hjá Skífunni, þar af var hann framkvæmdastjóri fyrirtækisins síðasta árið áður en hann sagði upp í nóvember síðastliðn- um. Ákvörðunin um að snúa sér alfarið að tónlist- inni hafði ekki blundað lengi í honum. „Eitt leiddi bara af öðru og svo þegar mér gafst tækifæri til að gera þetta fór ég strax „full time“ í að gera plötuna okkar. Það fór allur nóvember og framan af desember í hana, að taka upp, mixa, vinna að umslaginu og svo auðvitað útgáfutón- leikarnir. Auðvitað var fullt af mönnum í kring- um mig með í þessu, en þegar maður er að leiða eru ákveðin verkefni sem maður vill og á að klára sjálfur. Ég er líka mjög heppinn að því leytinu að ég er snarofvirkur.“ Spurður hvort hann geti framfleytt sér og sín- um, en Halldór er í sambúð með Brynju Dögg Heiðudóttur, segir hann þau hjúin alla vega ekki dauð enn þá. „Ég er að spila mjög mikið, bæði á böllum og með hljómsveitum sem taka upp sitt eigið efni, auk þess sem ég trúbadorast stundum. Og svo eru það náttúrlega Fjallabræður. Það er búið taka fjögur ár að búa til þennan kór og ég get haft smá tekjur af því, alla vega nægar til að lifa af, og ég þarf ekkert meira í augnablikinu. Auðvitað væri voða notalegt að eiga fullt af peningum, en það er ekki það sem ég er að leita að núna.“ KANNSKI TILFINNINGANÆMARI EFTIR FLÓÐIÐ Halldór segir alls konar skemmtilega hluti fylgja tónlistarbrölti sínu. „Ég lenti til dæmis í því að vera valinn Vestfirðingur ársins 2009 af bb.is,“ segir hann en bb.is er vefsíða fréttamiðilsins Bæj- arins besta á Ísafirði. Já, menn geta „lent“ í ýmsu eins og dæmin sanna. „Þetta er æðsti heiður sem mér getur hlotnast. Ég fékk þetta samt náttúrlega ekki einn, þetta er viðurkenning fyrir alla í Fjallabræðrum. Það sem er líka svo frábært við kórinn er að allir vita að hann er að vestan. Og þetta er ekki bara hópur frá einhverju þröngu svæði heldur er hann frá nánast öllum fjörðum Vestfjarða.“ Nokkrir meðlima kórs- ins eru Akurnesingar sem helgast meðal annars af því hve vel Skagamenn komu fram við Flateyr- inga eftir að snjóflóðið féll á bæinn árið 1995. „Sumarið eftir snjóflóðið buðu Skagamenn Grunnskólanum á Flateyri í tveimur hollum á Skagann,“ segir Halldór. „Þar vorum við bara í fótbolta og golfi og höfðum það gott. Ég hef alltaf hugsað hlýlega til Skagamanna eftir það.“ Halldór var fjórtán ára þegar flóðið féll. Hann segir þennan sorglega atburð vitanlega hafa mót- að sig þótt enginn í hans nánustu fjölskyldu hafi verið á meðal hinna látnu. „Maður hugsar öðru- vísi, er kannski tilfinninganæmari. Sumir lokast, aðrir opnast. En maður á að taka öllu því sem maður lendir í og gera eitthvað fallegt úr því.“ kristjanh@dv.is Og sem ég sat þarna í bananaúlpunni þá helltist yfir mig spurning- in: „Hvað ertu að gera?“ Faðmlög Halldór segir menn oft þurfa að faðmast svo mikið fyrir æf- ingar að söngurinn geti ekki hafist fyrr en eftir dúk og disk. MYND KRISTINN MAGNÚSSON Pósað og sungið Kórinn á Miklatúni við myndatöku fyrir plötuna sem kom út fyrir jól. Á söguslóðum Hljómsveit kórsins við Almannagjá á Þingvöll- um við tökur á myndbandi.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.