Són - 01.01.2009, Side 9
Ástráður Eysteinsson og Eysteinn Þorvaldsson
Á hnotskógi
Skyggnst um í ljóðheimi
Helga Hálfdanarsonar
Helgi Hálfdanarson fæddist 14. ágúst árið 1911. Hann ólst upp á
Sauðárkróki og kenndi sig gjarnan við þann stað. Kona hans, Lára
Sigurðardóttir, var einnig frá Sauðárkróki. Helgi varð stúdent frá
Menntaskólanum á Akureyri 1930. Hann nam lyfjafræði á árunum
1936–1939, seinni tvö árin við framhaldsnám í Kaupmannahöfn og
lauk þar cand. pharm.-prófi í október 1939. Helgi ritaði ekki endur-
minningar sínar en í skrifum sínum segir hann oft frá kynnum sínum
af mönnum og málefnum. Á fullorðinsárum brá hann hinsvegar upp
mynd af sjálfum sér á unglingsárunum í menntaskóla:1
[…] í sjötta bekk var átján ára strákur úr norðlenzku sjávarþorpi,
fádæma villiköttur. Hann var allt í senn: hortugur, heimskur og
latur. Engin var sú skólaregla, sem hann braut ekki daglega, og
engin sú óartar-iðja, að hann ekki stundaði hana fremur en
dyggðir góðs nemanda. Ástæðan til þess, að hann skreið á próf-
um án þess að falla, var engin önnur en sú, að kennarar máttu
ekki til þess hugsa að hafa hann í sinni návist stundinni lengur
en skemmst mátti verða.
Í þessari lýsingu birtist eitt helsta skapgerðareinkenni Helga: gróm-
laus kímni á sjálfs hans kostnað. Vart þarf að taka fram að Helgi var
gagnmenntaður, jafnt á raungreinar sem tungumál, og einhver mesti
kunnáttumaður í bókmenntum á sinni tíð. Allt sem hann skrifaði,
bæði frumsamið og þýtt, sýnir frábæra þekkingu hans og leikni í
meðferð bókmenntaverka og tungumála.
1 Helgi Hálfdanarson: „Matthías Jónasson“ [afmælisgrein], Molduxi. Rabb um kveðskap
og fleira, Reykjavík: Mál og menning 1998, bls. 158–160, hér bls. 159.