Són - 01.01.2009, Page 12
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON12
Ljóst má vera að skáldheimur rómantísku stefnunnar hugnaðist
Helga vel og má hann teljast ein helsta uppspretta hans og baksvið
sem þýðanda og listasmiðs tungumálsins. Þessi heimur var að vísu
ekki á eina bókina lærður. Í deiglu rómantíkurinnar mynduðust frjó
tengsl hefðar og nýjunga. Og það voru rómantíkerarnir sem festu
William Shakespeare endanlega í sessi sem meginskáld enskrar
tungu. Ekki aðeins ensku rómantíkerarnir, heldur einnig þeir þýsku
sem þýddu hann svo að rammt kvað að og gerðu hann að einu
helsta skáldi þýskrar rómantíkur. Hið sama má segja um Forn-
Grikkina: þeir voru innleiddir og endurnýjaðir í þýsku á þessum tíma
og áttu þær þýðingar ekki lítinn hlut í þeirri mögnuðu bókmennta-
sköpun sem fram fór á þýsku um og eftir aldamótin 1800. Stefnumót
Helga við Grikkina átti sér stað alllöngu síðar, en til Þýskalands var
hann kominn í andanum strax á árinu 1950. Síðla það ár birtist í
Tímariti Máls og menningar grein eftir bandaríska fræðimanninn P.M.
Mitchell um þýska skáldið Friedrich Hölderlin. Í greininni birtust í
íslenskri gerð bæði hluti af kvæðinu „Patmos“ og það ljóð Hölderlins
sem hvað frægast hefur orðið, „Vort hálfa líf“:4
Með ferskum gulum perum
og fullt af villtum rósum
svífur bárunnar land;
þið björtu svanir,
í kossa draumvímu
þið drepið höfði
í vatnsins véhelgu ró.
Vei mér! Hvar má ég
á myrkum vetri blóm lesa,
skin af sólu
og skugga við jörð?
Þöglir standa
steinmúrar kaldir,
Í gjósti vindhanar gnauða.
4 P.M. Mitchell: „Friedrich Hölderlin“, Tímarit Máls og menningar, 11. árg., 3. hefti,
1950, bls. 277–282 (þýðingarnar á bls. 277–279). „Vort hálfa líf“ er birt hér í þeirri
gerð sem prentuð er í Handan um höf, Reykjavík: Heimskingla 1953, bls. 16–17. Í
þeirri gerð sem fyrst birtist gnauða „vindfánar“, en þeir eru orðnir „vindhanar“
þegar ljóðið birtist á bók.