Són - 01.01.2009, Page 14
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON14
Hin ljóðin tvö eru sonnettur; önnur, „Dettifoss“, er svipmikið
náttúruljóð en hin heitir „Dóttir mín“. Það er fallegt, tilfinningaríkt
ljóð sem endar svona:
Þú komst svo ljúf og léttstíg á minn fund
sem lítil dúfa beint af himni send,
á vanga mér þú lagðir ljósa mund, –
ég læðast fann um hugann milda kennd:
Sú perla, sem um eilífð er mér týnd,
í augna þinna djúpi var mér sýnd.
Öll eru ljóðin myndrík og vandlega kveðin og lofuðu góðu um að hér
hefði stigið fram nýtt fullþroska skáld á svipuðum aldri og Snorri
Hjartarson var, þegar fyrsta ljóðabók hans birtist sex árum fyrr. En
það varð bið á framhaldinu. Rithöfundarferill Helga var eigi að síður
rétt að hefjast. Nú tók hann að þýða heimsbókmenntir á íslensku og
á því sviði vann hann einstakt stórvirki. En árið 1956 birtust enn þrjú
frumsamin ljóð eftir Helga, nú í Nýju Helgafelli, og þar kveður við
annan tón en í fyrri kvæðum hans.6 Þetta eru óbundin ljóð en mynd-
vísin er söm og fyrr. Hið fyrsta þeirra nefnist „Mansöngur“:
Komdu til mín í kvöld
þegar myrkrið flæðir af fjallseggjum
og bakvið skýjaskör
liggur máninn á gægjum
öðru auga
einsog gömul hauskúpa
undan hjarnskafli,
já komdu til mín í Kaldagil
mín ljúfa.
Annað kvæðið heitir „Ættjarðarljóð“ og er aðeins þrjár ljóðlínur:
Hvít jöklasóley
þar sem eyðingin bryður blágrýtið
undir tönn.
6 Helgi Hálfdanarson: „ Þrjú ljóð“, Nýtt Helgafell, 1. árg., 3. hefti, 1950, bls. 127–129.