Són - 01.01.2009, Side 16
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON16
Anonymus (Jóhannes úr Kötlum) í safninu Annarlegar tungur (1948).
Lykilþættir í bók Helga mega þó teljast þrír: ljóð eftir þýsku og ensku
rómantíkerana; sonnettur og söngljóð Shakespeares; og Rúbajat-
kvæðaflokkurinn eftir Ómar Kajam, og er þar lagt út af enskri þýð-
ingu Edwards FitzGeralds eins og löngum hefur tíðkast. Fyrir voru á
íslensku frægar þýðingar á Rúbajat; Einar Benediktsson hafði þýtt
hann á sinni tíð en það er athyglisvert að Helgi er líka ófeiminn við
að bjóða upp á samanburð og samræðu við hinn rómaða þýðanda
Magnús Ásgeirsson sem þá var enn á lífi og hafði meðal annars þýtt
Rúbajat. Þarna lágu saman leiðir þessara tveggja mestu þýðenda
Íslendinga á 20. öld, en einungis stutta stund. Þótt ekki væri nema tíu
ára aldursmunur á þeim, átti Magnús ekki nema tvö ár ólifuð þegar
þarna var komið, en Helgi var nýkominn fram á sjónarsviðið sem
bókmenntaþýðandi og átti langan feril framundan. Ekki gefst hér
tækifæri til að bera saman Rúbajat-þýðingar þeirra, þótt skemmtilegt
væri, en athygli skal þess í stað vakin á Shakespeare-þættinum í
Handan um höf. Í einni svipan var Helgi orðinn helsti sonnettuþýðandi
landsins. Í bókinni eru níu af sonnettum Shakespeares, þeirra á meðal
sú sem þekktust má teljast og hefst svo í túlkun Helga:8
Skal líkja þér við ljósan sumardag?
Þitt ljúfa fas á meira yndi og frið,
því stormar laufi kveða kuldabrag
og kvatt er sumar eftir skamma bið.
En eins snjallar og sonnettuþýðingarnar eru, sem og þýðingarnar á
Kajam, Schiller, Keats og Wordsworth, þá kann svo að fara, við nána
skoðun og endurnýjuð kynni, að hæst af öllu í þessari merku bók beri
lítið ljóð, átta línur alls og engin löng. Hér er formi og hrynjandi hins
þýska frumtexta fylgt nákvæmlega en mátturinn í sumum lykilorð-
unum hjá Helga ber ekki aðeins vott um nákvæm vinnubrögð heldur
einnig sjálfstæði þýðandans andspænis skáldjöfri á borð við Jóhann
Wolfgang Goethe, því hér er um að ræða frægt kvöld- og skógarljóð
hans, sem ýmsir höfðu áður þýtt á íslensku, en þær þýðingar standast
ekki samjöfnuð við þennan texta sem Helgi gaf heitið „Kvöldljóð veg-
faranda“:9
8 William Shakespeare: „Mansöngur“, Handan um höf, Reykjavík: Heimskringla
1953, bls. 23.
9 Handan um höf, bls. 16. Sjá um þessa þýðingu grein Ástráðs Eysteinssonar, „Tign yfir
tindum og dauðinn á kránni“, í tímaritinu Jón á Bægisá, nr. 13, 2009, bls. 16–28.