Són - 01.01.2009, Side 22
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON22
þjóðlífi og staðháttum, og ungir listamenn sækja henni nýtt frjó-
magn þangað sem bezt grær í umheimi. Einna umsvifamest
verður myndlistin, sem nemur landið á ný, sveitir þess, fjöll og
svanaheiðar, og skyggnist um hraun og lyngmó, bæjarhús og
hulduhamra.
Um þýðingar og ljóðform
Í ljóðaþýðingum færði Helgi Hálfdanarsonar brátt út kvíarnar og sótti
ljóð til fleiri landa en í upphafi. Í bókunum Á hnotskógi (1955) og Undir
haustfjöllum (1960) eru þýðingar á ljóðum frá 17 löndum, meðal annars
forn kveðskapur frá Grikklandi, Egyptalandi, Indlandi og Arabíu,
auk Japans og Kína. Í þessum bókum eru, sem fyrr, mörg ljóð frá
Vesturlöndum: Englandi og Þýskalandi, en líka ljóð frá Frakklandi,
Spáni, Rússlandi og Bandaríkjunum. Í þýðingasöfnum Helga eru
ennfremur allmörg ljóð frá skandinavísku löndunum, einkum eftir
skáld á fyrra hluta tuttugustu aldar. Helgi hafði meðal annars mætur
á hinum einlægu og hnitmiðuðu ljóðum danska skáldsins Piets Heins.
Eitt af mörgum þeirra sem hann þýddi er „Um sólskinið“, ljóð til
hughreystingar á þrengingatímum:20
Eitt sinn var sólskinið einungis sólskinið,
indælt og gullbjart að sjá.
Nú eru alheimsins áhyggjur komnar
og eiga að dragast frá.
Fengi ég viðtal hjá veraldarstjórninni,
viki ég orðum að því
að fá okkar skuldlausa, gamla og gullna
og glaðværa sólskin á ný.
Náin kynni Helga af erlendri ljóðagerð veittu honum að sjálfsögðu
góða sýn yfir gamlan skáldskap og nýjan, þarámeðal óbundin ljóð.
Hann gaumgæfði mismunandi skáldskaparaðferðir, ekki síst í sam-
bandi við eigin ljóðaþýðingar og annarra.21 Íslenskir þýðendur hlutu
20 Piet Hein: „Um sólskinið“, Undir haustfjöllum, Reykjavík: Heimskringla 1960, bls.
26.
21 Sbr. greinarnar „Heilsaði hún mér drottningin“, Molduxi, bls. 84–96 (en fyrst birt
1978), „Ögn um þýðingar“, Molduxi, bls. 133-138 (fyrst birt 1987), og „Tvenns
konar þýðing“, Molduxi, bls. 139–141 (fyrst birt 1995).