Són - 01.01.2009, Side 33
Á HNOTSKÓGI 33
Einarssonar, en hann hafði þýtt nokkur leikrit skáldsins snemma á
20. öld og tvö þeirra rötuðu, fyrst Shakepeare-verka, á íslenskt svið.
1964 var einnig útvarpað Óþellóþýðingu Matthíasar Jochumssonar
og Þjóðleikhúsið sviðsetti þýðingu hans á Hamlet, en auk þessara
tveggja verka þýddi Matthías einnig Macbeth og Rómeó og Júlíu á sinni
tíð. En 1964 verður ekki um villst að nýr íslenskur Shakespeare-
þýðandi hefur stigið fram á sviðið; þrjár þýðingar hans eru leiknar
það ár; Ofviðrið (The Tempest) í útvarpi, Þrettándakvöld hjá Leikfélagi
Akureyrar, auk áðurnefndrar sýningar á Rómeó og Júlíu, þessa lykil-
verks í ástarbókmenntum Vesturlanda.
Þegar þetta gerðist var liðið nokkuð á annan áratug síðan Helgi
tók að þýða leikrit Shakespeares. Í greininni „Shakespeare á Íslandi“
sem birtist í Skírni árið 1988 fjallar Helgi Hálfdanarson um íslenskar
Shakespeare-þýðingar, þar á meðal eigin þýðingar.37 Hann segir frá
því að 1951 hafi Lárus Pálsson leikari og leikstjóri beðið sig að þýða
gamanleikinn As You Like It fyrir Þjóðleikhkúsið. Þýðing Helga var
sviðsett 1952, fyrst Shakespeare-leikrita í Þjóðleikhúsinu. Hún var
flutt aftur í Þjóðleikhúsinu árið 1996. As You Like It, eða Sem yður þókn-
ast, byggist eins og fleiri leikrit Shakespeares á vensla- og tengslaneti,
þar sem endurtekningar, víxlanir og misgrip skarast við mismunandi
hlutverk, gervi og grímur persónanna. Friðrik nokkur hefur sölsað
undir sig lönd hins réttmæta hertoga, bróður síns, sem er í útlegð í
Arden-skógi þar sem í kringum hann hefur myndast nýtt samfélag.
Þangað stefna, hvort í sínu lagi, kappinn Orlandó, sem einnig er
fórnarlamb bróður-ofríkis, og dóttir hertogans, Rósalind, en þau hafa
þó áður fengið mikla ást hvort á öðru.
Í leikritum Shakespeares er leiktextinn af þrennu tagi: í fyrsta lagi
prósi, semsé óbundið talmál; í öðru lagi upphafnara talmál í bundnu
formi, nánar tiltekið „blank verse“ eða „stakhenda“, með fimm all-
reglubundnum áhersluatkvæðum og í einstaka tilvikum endarími. Í
þriðja lagi afmörkuð kvæði sem persónur mæla fram eða syngja. Öllu
þessu er fyrir að fara í Sem yður þóknast. Söngljóðin þýðir Helgi eins og
textinn leiki í huga hans og höndum og hið sama á við um prósann
sem hér er oft þéttur, hraður og hnyttinn, einkum í samræðum
Orlandós og Rósalindar þegar hann ber ekki kennsl á hana í dular-
gervi og telur sig vera að ræða við kynbróður sinn. Þannig gefst henni
37 Helgi Hálfdanarson: „Shakespeare á Íslandi“, Skírnir. Tímarit Hins íslenska bókmennta-
félags, 162. árg., haust 1988, bls. 246–255. Stytt gerð greinarinnar birtist í Molduxa,
bls. 145–152.