Són - 01.01.2009, Page 34
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON OG EYSTEINN ÞORVALDSSON34
úrvalstækifæri til að vega hann og meta – og sannfærast um til-
finningar sínar.
Stakhendan hefur verið stærsta áskorunin fyrir Helga og sennilega
var hagkvæmt fyrir hann að byrja að glíma við hana í þessu verki
frekar en til dæmis harmleikjum á borð við Hamlet eða Macbeth þar
sem stakhendan drottnar yfir orðræðunni. Í slíkum ummælum felast
þó engar efasemdir um að Helgi hafi frá upphafi gert sér glögga grein
fyrir eðli stakhendunnar og verið þess fullviss að hann vildi endur-
skapa á íslensku þetta bundna form, þetta leikljóð, fremur en að fella
hina klassísku leiktjáningu niður á „hversdagslegt“ svið prósans.
Langflestar þekktustu leiklínur Shakespeares eru á stakhendu og þær
missa flugið ef þær eru leystar undan kröfum formsins. Margir hafa
heyrt þekktustu línurnar í Sem yður þóknast, allt eins þótt þeir hafi ekki
lesið eða séð verkið. Þær hrjóta af munni hins þunglynda Jakobs sem
er í fylgdarliði hertogans í skóginum:38
Öll veröldin er leiksvið,
og aðeins leikarar hver karl og kona,
þau fara og koma á sínum setta tíma,
og sérhver breytir oft um gervi, og leikur
sjö þætti eigin ævi. [...]
En stakhendan er ekki aðeins farartæki hinnar formföstu visku.
Galdur hennar felst oftar en ekki í því að hún leyfir talmáli og
ljóðmáli að hljóma einum rómi, oft þannig að hinn pentajambíski
bragur leikur undir tjáningu án þess að áheyrendur veiti því sérstaka
athygli. Svona mælist Rósalind þegar henni hugkvæmist að dulbúast
til að geta ferðast óhult til Arden-skógar:39
Hvernig væri,
fyrst ég er meira en meðallag á hæð,
að klæða mig í karlmannsföt? og láta
biturt sax hanga hér við lærið á mér?
ég tek mér spjót í hönd; og – þó að hími
öll kvenleg hræðsla í hjartans felustað, –
þá geri ég mig svolalega á svipinn,
38 William Shakespeare: Sem yður þóknast, í: Leikrit I, þýð. Helgi Hálfdanarson,
Reykjavík: Heimskringla 1956, bls. 230.
39 Sem yður þóknast, bls. 212.