Són - 01.01.2009, Blaðsíða 45
Á HNOTSKÓGI 45
Hrólfur Sveinsson er semsagt tengdur Helga með svipuðum hætti og
áðurnefndur Magnús Björnsson, sem andmælti óbundnum ljóðum, en
Hrólfur kemur til sögunnar nokkrum árum síðar. Jafnan voru þessir
fóstbræður á öndverðum meiði og var það alltaf Hrólfur sem veitti
Helga ofanígjöf, en Helga var hinsvegar gjarnt að hrósa Hrólfi og
fjalla um hann af vinsemd. Þótt Helga fyndist miður ef enginn vildi
rökræða við hann, kom fyrir að honum þóttu ekki öll skoðanaskipti
ánægjuleg og málefnasnautt karp var honum ekki að skapi. Einhver
fór til dæmis að atyrða Helga með ófyrirleitni fyrir skoðanir hans.
Helgi svaraði ekki en hinsvegar skrifaði Hrólfur þá pistil til að
hnykkja á ávirðingum í garð Helga og taka undir með andmælanda
hans. Snerust vopnin þá þannig að undirtektir Hrólfs urðu til þess að
gera ádeiluna á Helga skoplega. Þessar krókaleiðir voru ákjósanlegt
bragð til að leiða hjá sér leiðindaþvarg með því að beita kaldhæðni.
Stundum kom ýmislegt spaugilegt fram í ákúrum Hrólfs. Hann átti
það til að ruglast svolítið í ríminu, til dæmis þegar hann hneykslaðist
á andúð á málslettum sem sjá mátti í grein Helga, „Uppblæstri“.
Hrólfur bendir á tökuorðið „biskup“ sem talið sé gott og gilt og lýkur
máli sínu um þetta orð með svofelldum rökstuðningi:56
Ekki er mér kunnugt um neina hliðstæðu þess orðs, og var það
þó tekið til að spóka sig í málinu löngu áður en Snorri Sturluson
drukknaði í sýrukerinu á Bergþórshvoli sællar minningar.
Síðar vitnaði Helgi sjálfur í þessi ummæli Hrólfs í öðru samhengi.
Fyrir kom að málglaðir menn skrifuðu í blöð og reyndu með hrekkja-
brögðum að trufla „vináttutengsl“ þeirra Helga og Hrólfs. En vopnin
snerust ætíð í höndum slíkra aðsúgsmanna.
Hrólfur Sveinsson sýndi á sér fleiri hliðar. Árið 1984 tók að birtast í
Morgunblaðinu kveðskapur eftir hann. Kvæði hans eru í traustu, hefð-
bundnu formi en efnistök og hugblær allur með spaugilegum hætti og
sérlega óhátíðlegur. Gat þar fyrst að líta „Vor-sonnettu“ sem endar
svona:57
Úr klaka-skurni skríður hráblaut jörðin,
svo skelfing nýfætt grey og ótútlegt,
56 Hrólfur Sveinsson: „Gallerí Pissa“, Morgunblaðið, 7. ágúst 1982.
57 Lesbók Morgunblaðsins, 28. apríl 1984.