Són - 01.01.2009, Síða 61
Ólafur Halldórsson
Af Stefáni frá Hvítadal
og kvæði hans, Erlu
Handritastofnun Íslands, forveri Stofnunar Árna Magnússonar á
Íslandi, var á árunum 1962–69 til húsa í lessal handritadeildar Lands-
bókasafns í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Ég kom þar til starfa vorið
1963 og komst fljótlega í kynni við Vilmund Jónsson, áður landlækni,
sem heita mátti að væri daglegur gestur í húsinu. Vilmundur hafði frá
mörgu að segja, enda allra manna fróðastur, jafnt um menn sem mál-
efni liðins tíma og líðandi stundar, og sagði afburðavel frá, enda verða
spor hans víða rakin í skáldverkum síðustu aldar. Það kom stundum
fyrir að ég hafði, að mér fannst, eitthvað merkilegt að segja konu
minni þegar ég kom heim úr vinnunni og hún þakkaði fyrir með
þessum orðum: ,Nú hefurðu hitt Vilmund!‘
Ekki man ég lengur aðdraganda að því, að Vilmundur sagði mér
hvað varð til þess að Stefán frá Hvítadal orti kvæðið um Erlu, ,Erla,
góða Erla‘, en það sem ég þykist muna af frásögn hans er þetta, sem
að vísu er fjarri því að vera orðrétt eftir honum haft:
Hallbjörn Halldórsson prentari setti fyrstu ljóðabók Stefáns frá
Hvítadal, Söngva förumannsins. Hann hafði tal af Stefáni þegar hann
hafði að mestu lokið setningu og umbroti bókarinnar sumarið
1918 og sagði honum að kvæðin væru of fá og hann yrði að koma
með að minnsta kosti eitt til viðbótar. Stefán taldi einhver vand-
kvæði á því, en Hallbjörn lét sig ekki, keypti brennivínsflösku og
fór með Stefán í sólskini og sumarhita upp í lítið þakherbergi í
Iðnó, setti hann þar við borð með pappír og ritföng og fulla
flösku af brennivíni og sagði að hann færi ekki út fyrr en hann
hefði ort að minnsta kosti eitt kvæði til viðbótar þeim sem hann
var að ljúka við að setja. Þar sat Stefán í þessari herbergiskompu
í birtu sólar og hita hásumardags og lauk hvorutveggju: brenni-
víninu úr flöskunni og kvæðinu um Erlu með sínu koldimma
kvöldi og álfum sem þeystu úti um ísi lagða slóð.