Són - 01.01.2009, Blaðsíða 63
Ólafur Halldórsson
Málfríður frá Munaðar-
nesi og Heine
Málfríður Einarsdóttir frá Munaðarnesi hélt lengi þeirri venju sinni
að koma að sumarlagi til Kaupmannahafnar og dveljast þar í viku eða
nokkrar vikur, eftir aðstæðum, og mun þá oftast hafa verið til húsa á
Fríhafnargötu hjá Steinunni Ólafsdóttur, en tíður gestur hjá Jóni
prófessor Helgasyni á Kjærstrupvej í Valby.
Það mun hafa verið á árunum 1953–57, líklega 1955 eða 1956, að
ég kom sem oftar til þeirra hjóna, Steinunnar og Þórðar Jónssonar á
Fríhafnargötu. Þá var Málfríður stödd þar og sýndi mér þýðingu sína
á öðru og þriðja erindi kvæðis eftir Heinrich Heine, en fyrsta erindið
var óþýtt og óárennilegt, og fékk hún mér þýska textann og spurði
hvort ég vildi ekki reyna að þýða þetta erindi. Ég man ekki hvort ég
lofaði henni neinu um það, en leist þó þannig á að ekki sakaði að
reyna að ná efni og anda erindisins á íslensku. Það tókst mér, að mér
þótti, svona nokkurn veginn, og skeytti því framan við erindin tvö
sem Málfríður hafði þýtt og fékk henni vélritað. Hún sýndi Jóni
Helgasyni blaðið, en ekki veit ég hvað Jón sagði um það við hana, en
næst þegar ég hitti hann var hann stórhneykslaður á að ég skyldi ekki
sjá og lagfæra galla á síðustu línu kvæðisins hjá Málfríði: ,hverfast
stjörnur yfir mér.‘ Þarna hefði Málfríður látið mætast tvö orð, hið
fyrra sem endaði á st og hið síðara sem byrjaði á st, sem væri óhæft,
og gat Jón þess að hann hefði lengi átt í stríði við að venja Halldór
Kiljan af þessum fjanda. (Orðalag hans hef ég ekki rétt eftir, enda man
ég það ekki.)
Þetta kvæði Heines er í Letzte Gedichte, hér tekið með lítið eitt
breyttri stafsetningu, eftir Heinrich Heine’s Gesammelte Werke.
Herausgegeben von Gustav Karpeles. Zweiter Band. Berlin 1887, bls.
568. Á eftir því set ég þýðingu okkar Málfríðar og leyfi mér að
lagfæra gallann í síðustu ljóðlínu í texta Málfríðar: