Són - 01.01.2009, Page 66
BRAGI HALLDÓRSSON66
og Örvar-Odd til einvígis í Sámsey að vori.3 Vitaskuld koma þeir
félagar til Sámseyjar á tilsettum tíma. Í Örvar-Odds sögu er enginn
slíkur aðdragandi heldur koma Angantýr og bræður hans að þeim
félögum í Sámsey, þar sem þeir eru í óðaönn að heyja sér við í skip
sín, og leggja fyrirvaralaust til atlögu við þá enda hafði Angantýr haft
spurnir af þeim áður og talið þá verðuga andstæðinga.
Fjöldi handrita er vitnisburður um vinsældir sagnanna tveggja
meðal alþýðu öldum saman. Þessar sögur byggjast að nokkru leyti á
eldri hetjukvæðum sem kunn voru víða um Norðurlönd á elstu
tímum. Sögninni var einnig haldið lifandi í sænskum og dönskum
ballöðum og norskum og færeyskum sagnakvæðum og sagnadönsum
langt fram eftir öldum þótt einstök atriði í frásögninni séu ekki ávallt
hin sömu. Hennar sér hins vegar lítil merki í varðveittum íslenskum
sagnadönsum og vikivökum sem gefnir hafa verið út. Þeir Hjálmar og
Angantýr eru þó að minnsta kosti nefndir á einum stað í viðkvæði í
Kappakvæði sem hljóðar svo:
Ángantýr og Hjálmar
hjuggust þeir í ár.
Sundur var í brynjunni
hríngurinn blár.4
Aftur á móti eru dæmi um það frá 19. öld að sögnin um bar-
dagann í Sámsey hafi lifað í leikjum stráka á Íslandi þegar þeir léku
hann í gervi Arngrímssona, Örvar-Odds og Hjálmars hugumstóra.
Það sýnir hversu hugstæð hetjusagan var alþýðu og má eflaust rekja
til fornaldarsagnanna tveggja en síðast en ekki síst til rímna um
hetjurnar.5
Saxi hinn málspaki hefur einnig haft veður af sögninni um
Angantý og sverðið Tyrfing (og heyrt hana ef til vill af vörum Íslend-
ings). Saxi tekur hana þó upp í talsvert annarri mynd frá Hlöðskviðu
eða eftir eldri gerð hennar í 5. bók og að nokkru einnig í 6. bók
Danasögu sinnar (Gesta Danorum, dönsk þýð. Danmarks Krønike) í
frásögn af bardaga Fróða þriðja Danakonungs við Húna. Saxi fjallar
um bardagann í Sámsey á svipuðum nótum og gert er í Örvar-Odds
sögu en ástarsöguna vantar í frásögn hans. Hjá honum er megintil-
3 Sjá Hervarar saga og Heiðreks, bls. 192–193.
4 Sbr. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur III:341.
5 Sjá Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur VI:349.