Són - 01.01.2009, Page 71
ÁSTIR HJÁLMARS HUGUMSTÓRA OG INGIBJARGAR 71
Einstakar rímur um Hjálmar og Ingibjörgu
Rímur af Hervöru Angantýrsdóttur eftir Ásmund Sæmundsson
Rímurnar eru varðveittar í tíu handritum í Handritadeild Lands-
bókasafnsins og tveimur í Árnasafni. Eitt þeirra, Lbs. 470, 4to, er
hugsanlega að hluta til eiginhandarrit.11 Ásmundur tileinkaði þær
Birni Pálssyni sem var sýslumaður Eyfirðinga á árunum 1640–1669
en Sigríður dóttir Björns var kona Jóns Torfasonar prests á Breiða-
bólstað í Fljótshlíð sem lét Árna Magnússon fá handritin að rímunum
(AM 612 b, 4to og AM 614 b, 4to). Jón Helgason taldi að rímurnar
væru ortar út frá U-flokki handrita sögunnar en þó ekki sjálfu aðal-
handritinu U heldur glötuðu handriti sem hann nefndi u3*.12 U er
lakasta handritið en það var þó lagt til grundvallar í útgáfu Vereliusar
af sögunni í Uppsölum árið 1672. Jón birtir það ekki sem aðaltexta í
sinni útgáfu á sögunni heldur hefur R og H sem aðaltexta samhliða á
síðu. U-textann gefur hann síðan út sérstaklega á eftir aðaltextunum.
Handritið U barst með Jóni Rugmann til Svíþjóðar árið 1658 og hann
segir að Páll Hallsson (Björnssonar sýslumanns) hafi skrifað það. Páll
var innritaður í Hafnarháskóla árið 1647 og varð síðar prestur á
Sjálandi. Handritið er fullt af villum og Jón Rugmann gefur því hrak-
lega einkunn: „… kemur það svo til á Íslandi að sögur skrifast af við-
vaningum og lítt fróðum, og fara því klausur stundum á víðisvang,
frá sinni uppruna meiningu, eður ífrá hans meiningu sem fyrst hefur
skrifað.“13 Rímur Ásmundar víkja oft talsvert frá sögunni eins og hún
er í R og H en Ásmundur getur hafa haft annan og betri texta (ef til
vill u3(?)) fyrir framan sig til að yrkja út af en er í U eða stuðst við
munnlega arfleifð sem hann hefur síðan leikið sér með að vild. Hér
er að minnsta kosti ljóst að textafræðin veitir ekki öll svörin um upp-
runa rímnanna þótt vissulega sé hún hjálpleg. Jón Rugmann reyndi
meira að segja – eftir minni! – að leiðrétta handritið á spássíu eftir
rímum Ásmundar.
Í þessari grein er tekið mið af prentaða texta rímnanna eins og
hann birtist í Hrappseyjarútgáfunni 1777 vegna þess að ætla má að sá
11 Sjá nánar um handritin öll: Finnur Sigmundsson. Rímnatal I:223 og Jón Helgason.
„Indledning.“ Heiðreks saga: Hervarar saga ok Heiðreks konungs bls. xxvi–xxix.
12 Sjá nánar inngang Jóns, bls. xlviii–lx.
13 Tilv. fengin úr sama inngangi Jóns, bls. xxi.