Són - 01.01.2009, Page 88
BRAGI HALLDÓRSSON88
Elskendurnir ná að lokum saman og faðmast í haugnum (46) eins og
hjá Guðrúnu.
Rímur af Hjálmari hugumstóra
eftir Hallgrím „lækni“ Jónsson
Hallgrímur (1787–1860) fæddist í Borgargerði í Laufássókn í Eyjafirði
en ólst upp í foreldrahúsum að Lómatjörn í sömu sveit. Hann fluttist
um tvítugt til Skagafjarðar og var orðinn bóndi árið 1816 á Keldum í
Sléttuhlíð, þá kvæntur fyrri konu sinni.
Hallgrímur þótti gleðimaður, ölkær og kvenhollur. Kvennamál
hans voru tíðum milli tannanna á fólki enda átti hann börn utan
hjónabands. Í rímum verður honum oft tíðrætt um kvenfólk og sam-
band sitt við konur. Um ævina fékkst Hallgrímur við lækningar og
þótti happasæll sem læknir þótt hann hefði ekkert lært til þess starfs.
Viðurnefni sitt hlaut hann fyrir þær sakir. Hann átti risjótta ævi, var
löngum í fjárkröggum og bjó á ýmsum bæjum í Skagafirði og þar
andaðist hann. Hann átti oft í brösum við sveitunga sína en um það
efni hefur Margeir Jónsson skrifað í 4. bindi Blöndu.
Í lífanda lífi komu út á prenti þrennar rímur Hallgríms og árið
1856 einn bæklingur, Lítil hústafla heilbrigðinnar eður fáeinar lifnaðarreglur
og athugasemdir um meðhöndlun lífsins og heilsunnar. Flestar rímur hans og
kvæði eru til í fjölda handrita og nutu vinsælda.29
Rímurnar af Hjálmari voru ortar árið 1857, prentaðar á Akureyri
árið 1859 og endurútgefnar í Reykjavík árið 1909. Þær eru sjö talsins,
alls 703 vísur.
Hallgrímur nálgast hetjusöguna með allt öðrum hætti en fyrri
skáld og því verður fjallað allítarlega um rímurnar. Í formála fyrri
útgáfu, sem er sleppt í síðari útgáfu, gerir hann grein fyrir eftir hvaða
sögu hann yrkir. Þar segist hann hafa Hjálmars sögu sem fyrirmynd.30
Fyrst greinir hann frá að sagan hafi lengi hrakist um á Vesturlandi.
29 Sjá nánar um Hallgrím: Finnur Sigmundsson. Rímnatal II:60–61 og mun ítarlegar
Finnur Sigmundsson. „Formáli“, bls. xxv–xxvii.
30 Ekki hefur mér tekist að finna handrit þessarar sögu í handritasöfnum. Samt er
ekki útilokað að handrit hennar leynist einhvers staðar nema þá og því aðeins að
Hallgrímur noti söguna sem bragð til að auka tiltrú á rímunum. Í útgáfum Bilbergs
1690, Peringskiölds 1700 og Nordins 1774 er einhver Hjálmars saga sem þýdd var
á latínu og sænsku. Hallgrímur kann að hafa haft undir höndum handrit í ætt við
handritin sem voru lögð til grundvallar sænsku útgáfunum. Hér verður ekki
greitt úr þessu vandamáli enda er það ekki helsta viðfangsefni greinarinnar.