Són - 01.01.2009, Page 103
ÁSTIR HJÁLMARS HUGUMSTÓRA OG INGIBJARGAR 103
hans og nefnir það Leiftur (89), einnig rekur hann framætt Hjálmars
á annan veg en Hallgrímur læknir. Hjá Gísla er Hjálmar Hringsson af
ætt Vífils en óljóst er hvað hann hefur fyrir sér í því efni. Ríman er án
mansöngs en aftur móti koma höfundarinnskot um söguefnið allvíða
fyrir inni í sjálfri rímunni.
Ríman hefst á að segja frá Arngrímssonum og afrekum þeirra áður
en þeir búast að heiman frá Bólm og fara til Sámseyjar. Þeir hafa haft
spurnir af Hjálmari og Örvar-Oddi og vilja ólmir spreyta sig gegn
þeim. Bónorð við Ingibjörgu kemur þar ekkert við sögu sem tilefni.
Orðalaust salla Arngrímssynir niður skipverja Hjálmars og Odds og
brjóta skip þeirra í Munavogum meðan félagarnir höfðu gengið upp
á eyna (1–31). Þeir verða áskynja þess sem gerst hefur, koma á
vettvang og ræða sín á milli hverjir þessir ribbaldar séu sem geri svo
mikinn óskunda (32–57). Angantýr ávarpar þá félaga og Oddur setur
þeim einvígislög um að einn skuli berjast við einn í einu. Það sam-
þykkir Angantýr og leggur til að sigurvegararnir skuli veita hinum
föllnu virðulegan umbúnað eftir bardagann. Hjálmar og Oddur ræða
síðan sín á milli hvor þeirra skuli kljást við Angantý (58–73). Þá hefst
sjálfur bardaginn sem er meginefni rímunnar og vopnaskiptum er lýst
í löngu máli og ekkert dregið undan hversu stórhöggar hetjurnar eru
þar til Angantýr liggur dauður og Hjálmar hallast helsærður upp við
þúfu. Oddur kastar þá á hann vísum um að hann hafi nú „hafnað
fögrum liti“ (74–125). Hjálmar svarar í löngu máli með Dánaróði
sínum sem styðst í smáatriðum við óðinn í sögunni. Ingibjörgu er að
vanda lýst fagurlega en henni er ekki léð þar rödd (126–161). Oddur
hefst því næst handa við að búa um líkin eins og um hafði verið samið
(164–179), tekur síðan lík Hjálmars á herðar sér og ber til skips.
Siglingu Odds til Svíþjóðar er síðan lýst skáldlega þar sem Oddur
syngur með sjálfum sér sorgarljóð um fall hetjunnar og dætur Ægis
taka undir (180–196). Oddur flytur hina válegu fregn og færir
Ingibjörgu hringinn og banaljóð Hjálmars þar sem hún situr við að
sauma skyrtu á hann. Tíðindin verða henni ofviða og viðbrögðum
hennar er lýst svo:
212
Leit á bauginn, blikna fór,
böl nam hjartað særa,
hné á augun höfgi stór,
hringa þöllin mæra.
213
Harmr smýgr hyggju lóð,
hafnaði máli tunga,
þögult hnígr heims frá slóð
hilmis jóðið unga.