Són - 01.01.2009, Page 120
BRAGI HALLDÓRSSON120
Hjálmar hugumstóri eftir Helga Björnsson
Helgi (1886–1956) var ættaður frá Staðarhöfða í Innra-Akraneshreppi
og er kenndur við þann bæ í handritum Kára S. Sólmundarsonar.
Hann lést í Reykjavík. Um ævi hans veit ég fátt annað. Ef eitthvað má
ráða af rímunni um ævi skáldsins verður helst ályktað af sjóferða-
lýsingum að það hafi stundað sjómennsku ásamt búskap.
Ríman er 53 hringhend erindi og var prentuð í ljóðabók höfundar,
Örvum, í Reykjavík árið 1926. Hún hefst á mansöng (1–5) þar sem
skáldið minnist þess að hafa komið inn í mörg kotbýlin þar sem
kvæði voru kveðin til að létta mönnum lundina og vinnuna á kvöld-
vökunni eftir lýjandi og strangan vinnudag:
3
Kom ég inn í kotin mörg,
kvæða ginning háður,
sat þar kynning söngva fjörg,
sögu- og vinnuráður.
4
Hreysti bragna, hjörvagnýr
hreyfir magni laga.
Undrasagna ævintýr
ekur vagni Braga.
5
Roðans vegi rennur hljóð
raun, þó sveigi bakið,
Sáms- að -eyju svífur ljóð,
sagnamegin vakið.
Ríman hefst formálalaust á bardaganum í Sámsey sem er nýlokið
þegar Örvar-Oddur finnur Hjálmar allan blóði drifinn (6–10). Hjálm-
ar flytur þá Dánaróð sinn (11–33), stiklar á stóru um afrek sín og rifj-
ar upp kveðjustundina við Agnafit þar sem hann endursegir með
eigin orðum ræðu Ingibjargar, hún talar með öðrum orðum í gegnum
hann (22–25). Síðan biður hann Odd að skila kveðju til hennar ásamt
hringnum og einnig til félaganna í Sigtúnum (26–33). Oddur gengur
því næst frá lausum endum í Sámsey, tekur lík Hjálmars á herðar sér,
ber það á skipsfjöl og lætur í haf. Býsna hratt hefur verið farið yfir
sögu fram til þessa og greinilega er talið óþarft að fara út í smáatriði.
Næst bregður aftur á móti svo við að skáldið dregur upp myndræna
sjóferðarlýsingu sem freistandi er að tengja við reynslu höfundar af
sjómannslífi, því hér virðist skáldið vera á heimavelli: