Són - 01.01.2009, Page 139
Helgi Skúli Kjartansson
Að kenna kölska
Rækallinn sjálfur í Sturlungu?
Hversu skal kenna kölska?
Í Skáldskaparmálum Eddu svarar Snorri ámóta spurningum.
„Hvernig skal Krist kenna?“ spyr hann og stendur ekki á svörum,
studdum dæmum úr skáldskap 11. og 12. aldar.1 En á kölska2 eyðir
Snorri ekki einu orði, enda er hans sjaldgetið í fornum skáldskap og
ekki í kenningum nema örfáum og það löngu eftir daga Snorra.3
Djöfull og andskoti eru að fornu og nýju einna algengust heiti
kölska en mjög eru þau ólík að uppruna.4 Djöfull var alþjóðaorð síns
tíma, komið úr grísku gegnum latínu (diabolus) og engilsaxnesku.
Andskoti er hins vegar sér-norrænt heiti, haft um hvers konar mótherja
eða andstæðinga en heimfært upp á kölska sér í lagi. Orðið er valið
sem hliðstæða eða eins konar þýðing annars alþjóðaorðs, nafnsins
Satan, sem er hebreskt að uppruna en auðvitað komið til Norðurlanda
gegnum grísku og latínu (Satanas) og merkir „óvinur“. Hliðstæð ís-
lenskun er raunar til á heitinu djöfull þótt ekki hafi hún náð að vaxa
fyrirmynd sinni yfir höfuð. Það er orðið „rækall“, fyrst þekkt frá Jóni
Guðmundssyni lærða 1649.5 Upprunaleg mynd orðsins er talin
1 Snorra-Edda, Skáldskaparmál, 51. kafli, fært til nútímaritháttar.
2 Eins og ég kýs að nefna hann í þessari grein, einkum af því að það hljómar vel í
fyrirsögn. Kölska-nafnið er þekkt frá því um 1600 (elsta dæmi Orðabókar Háskólans
úr þýðingu eftir sjálfan Guðbrand biskup) og mun merkja „hinn köllsugi“, þ.e.
spottgjarni, meinyrti. Að merkingu stendur það því nærri heitinu rækallinn sem
mjög kemur við sögu hér á eftir.
3 Rudolf Meissner, Die Kenningar der Skalden. Ein Beitrag zur skaldischen Poetik
(Bonn/Leipzig, Kurt Schroeder, 1921), bls. 395. Kenningarnar eru fremur hvers-
dagslegar, lýsing frekar en líkingar: skemmda flýtir, girndar andi, flærðar meistarinn og
e.t.v. jarðar eyðir.
4 Um orðsifjar er hér stuðst við uppflettirit, ekki síst Ásgeir Blöndal Magnússon,
Íslensk orðsifjabók (Reykjavík, Orðabók Háskólans, 1989) undir andskoti, djöfull,
kölski, rægikarl, rækall, Satan.
5 Orðabók Háskólans, ritmálssafn,http://lexis.hi.is/ >Ritmálssafn>Orðaleit>rækall.