Peningamál - 01.02.2003, Blaðsíða 73
72 PENINGAMÁL 2003/1
I Inngangur
Árin 1998-2001 einkenndust af ójafnvægi í íslensk-
um þjóðarbúskap. Ójafnvægið birtist ekki síst í mikl-
um viðskiptahalla, sem nam tíunda hluta landsfram-
leiðslunnar þegar hann náði hámarki árið 2000.
Myndun hallans á árunum 1998-2000 olli verulegum
áhyggjum. Margir óttuðust að eftirköstin gætu orðið
harkalegur samdráttur og jafnvel fjármálakreppa.
Það jók enn á áhyggjurnar að fjármögnun hallans átti
sér stað með gríðarlegu innstreymi lánsfjár, sem á
árinu 2000 nam því sem næst tvöföldum viðskipta-
hallanum, því að á sama tíma streymdi fé úr landi
vegna umfangsmikilla kaupa innlendra aðila á er-
lendum verðbréfum og öðrum erlendum eignum.
Áhyggjur manna reyndust ekki með öllu ástæðu-
lausar. Meðal eftirkasta má telja u.þ.b. 30% lækkun á
gengi krónunnar frá vormánuðum 2000 til nóvember
2001, aukna verðbólgu, sem varð mest 9,4% í árs-
byrjun 2002, og samdrátt þjóðarútgjalda um líklega
u.þ.b. 6-7% á árunum 2001-2002. Slíkar hamfarir
myndu tæpast nokkurs staðar meðal þróaðra ríkja
teljast „mjúk lending“, nema e.t.v. á Íslandi. Aðlög-
unin var þó að sumu leyti mýkri en gera mátti ráð
fyrir, enda voru ytri skilyrði þjóðarbúskaparins afar
hagstæð. Hjöðnun hallans gekk jafnframt hraðar fyrir
sig en flesta hafði órað fyrir.
Hin hraða myndun og síðan hjöðnun viðskipta-
hallans er áhugaverð af ýmsum ástæðum, ekki síst í
ljósi þess að eðli og afleiðingar viðskiptahalla hafa
verið mjög til umræðu á alþjóðlegum vettvangi.
Meðal hagfræðinga hafa verið uppi ólíkar skoðanir á
þessu efni og hafa þær tekið töluverðum breytingum
í áranna rás. Það sem eftir er greinarinnar skiptist í
fimm hluta. Fyrst er fjallað um mismunandi viðhorf
sem uppi hafa verið meðal hagfræðinga um eðli
viðskiptahalla og nýlegar rannsóknir á afleiðingum
hans. Næst er reynt að greina myndun viðskiptahall-
ans á árunum 1998-2000. Þar er lagt mat á hvort hafi
átt ríkari þátt í myndun hallans: fjárfesting eða einka-
neysla, opinberi geirinn eða einkageirinn og loks
breyting þjóðhagslegs sparnaðar eða fjármunamynd-
unar. Því næst er fjallað um hvaða öfl knúðu fram
hjöðnun hallans árin 2001 og 2002, hvers vegna hún
Arnór Sighvatsson1
Myndun og hjöðnun viðskiptahalla árin 1998-20022
Í þessari grein er fjallað um myndun mikils viðskiptahalla á árunum 1998-2000 og hraða hjöðnun hans
árin 2001 og 2002. Reynt er að grafast fyrir um eðli og orsakir hallans, lagt mat á sjálfbærni hans í
ljósi ólíkra hagfræðilegra viðhorfa og fjallað um hvers vegna hallinn hjaðnaði örar en flesta óraði fyrir.
1. Höfundur er deildarstjóri á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands og stað-
gengill aðalhagfræðings.
2. Frumdrög að hluta þessarar greinar urðu til sem þáttur í starfi sam-
ráðshóps hagfræðinga frá Fjármálaráðuneytinu, Seðlabankanum og
Þjóðhagsstofnun á árinu 2001. Hugmyndin var að hópurinn sendi frá
sér skýrslu um þann vanda sem steðjaði að þjóðarbúskapnum vegna
viðskiptahallans. Áður en hópurinn lauk störfum var Þjóðhagsstofnun
lögð niður og þrír af fimm nefndarmönnum skiptu um starfsvettvang.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því að hópurinn kom síðast saman hefur
staða efnahagsmála gjörbreyst. Þar á meðal hefur viðskiptahallinn sem
var tilefni starfs hans horfið. Greinin varð því óhjákvæmilega nokkuð
öðruvísi en gert var ráð fyrir upphaflega. Hópinn mynduðu auk höf-
undar Bolli Þór Bollason og Björn Rúnar Guðmundsson frá fjár-
málaráðuneytinu, Katrín Ólafsdóttir og Þórður Friðjónsson frá Þjóð-
hagsstofnun og Már Guðmundsson frá Seðlabankanum. Höfundur
þakkar þessu fólki góðar ábendingar, hugmyndir og aðstoð, en er einn
ábyrgur fyrir öllum göllum sem eftir standa. Höfundur þakkar einnig
Þórarni G. Péturssyni aðstoð og ritnefndarmönnum og fleirum ýmsar
ábendingar.