Skírnir - 01.01.1946, Blaðsíða 8
6
Sigurður Nordal
Skírnir
að baki sér 27 ára kennaraferil á Bessastöðum. Um Bessa-
staðaskóla leikur meiri ljómi í sögu þjóðarinnar en nokk-
urn annan skóla, sem haldinn hefur verið á Islandi fyrr
eða síðar. Þessi fámenna stofnun bar meðal annars gæfu
til að brautskrá á einum sjö árum þá Baldvin Einarsson,
Tómas Sæmundsson, Jónas Hallgrímsson, Konráð Gísla-
son og Brynjólf Pétursson. Þessir menn og ýmsir aðrir,
sem mætti nefna, bjuggu alla ævi sína að vegarnestinu
frá Bessastöðum og ekki sízt því, sem Sveinbjörn Egils-
son hafði miðlað þeim. Vér getum ekki minnzt hans sem
rektors án þess að geta undanfarinnar kennslu hans, —
ekki rifjað upp sögu skólans í Reykjavík án þess að hugsa
um arfinn frá Bessastöðum.
Allir vita, hver atburður þykir mestum tíðindum sæta
frá rektorsárum Sveinbjarnar: Pereatið 1850. Það er
mesta andstreymi í skólastjórn, sem nokkur rektor eða
kennari í Reykjavíkurskóla hefur orðið fyrir, þótt oftar
hafi gefið á bátinn. Það er greypilegt, að þetta skyldi
dynja yfir slíkan öðling og ljúfmenni, svo ástsælan og
frábæran kennara. En pereatið er einn þeirra atburða,
sem má harma, en vandi er að dæma, á hvorn aðiljann
sem er litið. Og um það skal eg ekki f jölyrða. Það er horf-
ið í fortíðina, þó að saga þess sé geymd í minni.
Hugsum heldur um hitt, hver Sveinbjörn Egilsson er
fyrir nútímann. Af öllum þeim ágætismönnum, sem hafa
starfað í Reykjavíkurskóla og látið eftir sig, fyrir utan
kennslu sína, mikil verk í þágu mennta og fræða, ber
Sveinbjörn hæst. Lærdómur hans var víðfaðma, hæfileik-
ar fjölbreyttir, afrek hans mörg á ýmsum sviðum. Há-
skólanám hans var guðfræði, og það mun varla ofmælt,
að þær þýðingar nokkurra bóka heilagrar ritningar, sem
hann gerði úr hebresku og grísku, séu tiginbornustu
biblíuþýðingar á íslenzka tungu og miklu ókunnari en
við er unandi. Hins vegar eru þýðingar Hómerskvæða al-
kunnar, — þó líklega því miður oftar nefndar en lesnar.
Latína lék honum svo á tungu, að til hafa verið til skamms
tíma menntamenn meðal stórþjóðanna, sem hafa lesið