Skírnir - 01.01.1946, Blaðsíða 24
22
Lávus Sigurbjörnsson
Skírnir
t. d. brennivín, caffe eða þesskonar.“Já, jafnvel Jón
Guðmundsson, Þjóðólfsritstjórinn, og þó var hús hans
andlegur kastali bæjarins. Eini maðurinn, sem virtist vera
á annari skoðun, var Sigurður Guðmundsson málari.
En gnæfði ekki þarna upp yfir bikuð þil og signa moldar-
veggi þrílyft höll með kertaljós í hverjum glugga, svo að
áhorfendur niðri á Lækjargötu fengu ofbirtu í augun af
ljósadýrðinni? Og var ekki dansað þar inni? Var það ekki
Kirstín Gudjohnsen, sem steig dansinn, „klædd svörtum
kjól með einföldu sniði, með fína silfurfesti, tvísetta um
hálsinn — það var hennar eina skraut — og þó bar hún
af. Ó, svo fersk, svo falleg í látleysi sínu, eins og nýút-
sprungin rós“.23) Nei, í þá tíð mun það hafa verið Sigga
Tip, Sigríður í Brekkubæ, sem skáldið orti til 12 álna langt
og tírætt kvæði, en hún dansar við Eirík Magnússon meist-
ara í Cambridge. Eða var það Lára, horsk og þjóðleg Pét-
urs dóttir, eldri systir Kirstínar. Hún hafði sent lista-
manninum prjónavettlinga í jólagjöf, svo hann færi ekki
í jólaköttinn, en hann hafði kvittað fyrir með því að krota
aftan á bréfið, sem fylgdi sendingunni: „Aðskilinn frá
henni, hverrar augnaráð í svo marga daga hafði verið
hans leiðarstjarna, fann hann í hjartanu undarlegan tóm-
leika og kulda, sem hann aldrei fyrr hafði þekkt.“ En
Lára dansar við Jón Bjarnason í Winnipeg. Þær voru ekk-
ert blávatn, stúlkurnar í Reykjavík, þar sem þær dönsuðu
við mannsefnin sín. Þarna var æskulýður landsins, við
hann átti listamaðurinn erindi.
„Ég get ekki sagt, að mér líki svo illa við almenning
hér í Reykjavík eður annars staðar á fslandi, og hér er
ekki svo dauflegt, því alltaf eru hér að koma útlendir,
hver um annan þveran, allt fram á vetur; um öfund, kjaft-
æði og svínapólitík skipti ég mér ekki; annars held ég, að
menn geti fengið menn hér til að gera margt, ef góðir eru
fyrirliðar, en þá vantar nær því í öllum greinum. Menn
þurfa að fara hægt og bítandi, og þá vinnur maður mest.“
Þetta skrifar Sigurður í nóvember í Reykjavík 1860 til
vinar síns Steingríms Thorsteinssonar í Kaupmannahöfn.