Skírnir - 01.01.1946, Síða 71
Skírnir
Um Hemings flokk Áslákssonar
69
sér ekki til að þreyta sund við Heming'. Seinna í þættin-
um ógnar Halldór þó konungi, er hann hótar Oddi Ófeigs-
syni dauða, en það er á þeim stað í þættinum, sem Grímur
sleppir (j arteiknakaflanum).
Þessi lýsing á Halldóri er höfundi þáttarins eðlileg.
Hann getur vel þolað, að Halldór sé fremri Haraldi kon-
ungi, en ekki Hemingi, sem í hans augum á sér engan líka.
Þetta kemur við dálítið snöggan blett á Grími, en hann
leysir hiklaust úr þeim vanda og skipar Halldóri framar
þeim báðum, Hemingi og konungi. Grímur hefur alla tíð
verið hrifinn af lýsingu Halldórs Snorrasonar, eins og hún
er í þætti hans í Haralds sögu, og er það sízt að furða.
Grímur þýddi þáttinn á dönsku og orti seinna kvæði um
Halldór eftir honum og þurfti þá ekki að víkja frá heim-
ild sinni. Áhrif frá þætti Halldórs sjást líka snemma í
Hemingsflokki, þar sem sagt er, að Haraldur gjaldi hirð-
mönnum óskíran mála.
Fyrst nefnir Grímur Halldór í kvæðinu, er hann stend-
ur við hlið Haralds konungs og þeir horfa á leiki manna.
Halldór er roskinn maður eins og konungur og hefur fylgt
honum í öllum hans svaðilförum, og því hæfir að nefna
þá tvo saman. Þegar Hemingur kemur til konungs og
manna hans, leggur Grímur Halldóri þessi orð í munn:
— „Vilda’eg sjá þá húð,“ kvað Halldór fyrstur,
„sem hemingurinn þessi af er ristur.“
í Hemingsþætti er konungur látinn segja, að hann vildi
ekki sjá þá húð, sem Hemingur væri af. Grímur snýr þessu
við og leggur Halldóri í munn það gagnstæða, sem var
eðlilegt, því að Grímur vildi láta það í ljós, að Halldóri
geðjaðist vel að Hemingi í fyrstu, til frekari skýringar á
viðskiptum þeirra Halldórs og Hemings, sem á eftir fara
í kvæðinu og eru nálega að öllu leyti Gríms eigið verk.
Undrun Halldórs á vænleik Hemings heldur líka við þeirri
hugsun, sem alltaf vakir hjá Grími, að Hemingur væri
tiginnar ættar og ekki sonur Ásláks.
Þegar að því kemur, er konungur biður Halldór að
stytta Hemingi stundir í sundkeppni, dettur Grími ekki