Skírnir - 01.01.1946, Qupperneq 77
Skírnir
Um Hemings flokk Áslákssonar
75
um mest um vert, er, að hann getur sagt það undir rós, að
Hemingur dræpi konung, en þurfti ekki annað en að minna
á örina til þess að það skildist og orsakasamhengið yrði
fullljóst.
íþróttaafrekin færir Grímur sumstaðar í eðlilegra horf
en frá er sagt í þættinum. Konungur lætur vefja löngum
dúki um höfuð yngra sonar Ásláks og halda í endana,
þegar hnotin er skotin af höfði hans, og þar sem þáttur-
inn gefur í skyn, að þeir konungur og Hemingur væru
lengi dags í kafi, er þeir þreyttu sund, sleppir Grímur
auðvitað slíkri fjarstæðu.
Fjórða og síðasta hluta Hemingsflokks nefnir Grímur
Á Fjalli. Hann hefst á landslýsingu, sem ekki segir af í
Hemingsþætti nema með almennum orðum, að konungur
og menn hans fóru frá Torgum til lands og lentu við fjall
eitt mikið. í Sex söguþáttum er fjall þetta nefnt Smalsar-
horn. Það er að vísu til, en miklu sunnar í landinu en svo,
að það geti komið til greina í þessu sambandi. Þetta hef-
ur Grímur líkiega vitað, og hafi hann farið eftir Sex sögu-
þáttum, hefur hann fellt það úr, en hann bætir við þeim
staðfræðilegum upplýsingum, að leið konungs og manna
hans lægi fram með Foldar-eiði. Þó að þessi staðháttalýs-
ing sé mjög lítilf jörleg, virðist hún þó nærri lagi, ef farið
er suður með Torgum sjóveg með landi.
Önnur tilraun til staðfæringar er það, er Grímur lætur
Harald konung segja við Heming, að hann skuli ganga
efst á bringu Kjalar og renna sér svo niður, og verður
hún naumast talin sennileg.
Ekki verður séð, að Grímur hafi neina heimild fyrir
því, sem segir í síðasta erindi Hemingsflokks, að Hem-
ingur yrði jarl, en honum hefur líklega fundizt það ofur
eðlilegt og samborið ættgöfgi Hemings og íþróttum. Eins
er um hitt, að Tosti sæi eða lýsti örinni, sem Haraldi kon-
ungi varð að bana. Þó var Tosti í orrustunni við Stafna-
íurðu, og svo er sagt, að hann stæði nærri konungi í bar-
daganum, en vitneskjuna um þetta hefur Grímur úr Har-
alds sögu harðráða í Fornmannasögum.