Skírnir - 01.01.1946, Page 78
76
Andrés Björnsson
Skírnir
Útgáfur Hemingsflokks.
Hemings flokkur Áslákssonar birtist fyrst á prenti í
Andvara árið 1885, en síSar í Kaupmannahafnarútgáf-
unni af ljóðmælum Gríms Thomsens 1895.
í Andvaraútgáfunni af Hemingsflokki sjást mjög ber-
lega erfiðleikar þeir, sem Grímur átti við að etja í ljóða-
gerðinni. Á rangri stuðlasetningu ber ákaflega mikið, en
úr þeim ágöllum hefur mjög verið bætt í útgáfunni 1895.
Efnisbreytingar eru aftur á móti mjög lítilfjörlegar. Þó
er víða breytt um orð, stundum aðeins vegna rímsins, en
einnig á nokkrum stöðum stílsins vegna, af því að Grími
hefur þótt það fara betur. Mismunur og breytingar í þess-
um tveimur útgáfum kvæðisins eru eftirtektarverðar fyrir
þá sök, að af þeim má greina nokkuð um vinnuaðferðir
Gríms í skáldskapnum. Hann leggur sýnilega megin-
áherzlu á að vinna úr kvæðisefninu, en þegar hann hefur
mótað það svo, að ekki verður um bætt, lætur hann prenta
kvæðið í búningi, sem samtímaskáld hans hefðu ekki látið
sér sæma. Þessi listarsmekkur var svo fjarri því, sem
þjóðin hafði lært að meta, að engin von var til, að slíkt
kvæði ynni alþýðuhylli. Menn unnu betur lipurlega kveðnu
léttmeti en stirðlega ortu kvæði, sem var að efni þraut-
hugsað og snilldarverk. Þess verður þó að gæta, að Hem-
ingsflokkur er undantekning meðal ljóða Gríms. Kveðandi
og ljóðstafasetning í kvæðunum í bók hans frá 1880 var
miklu vandaðri. Líklega hefur Grímur verið svo ánægður
með það verk, sem hann hafði lagt í samsetningu efnisins
í Hemingsflokki, að hann hefur þess vegna látið það frá
sér fara fyrr en efni stóðu til að öðru leyti.
Enginn kostur er að tína til allar þær breytingar, sem
gerðar eru á ljóðstafasetningu kvæðisins í annarri útgáfu
þess 1895. Þær eru afarmargar og mjög keimlíkar. Grím-
ur hefur oftast flaskað á að hafa stuðla í áherzluveikum
bragliðum (lágkveðum). Skulu hér tilfærð örfá dæmi
þessa: