Skírnir - 01.01.1946, Blaðsíða 85
Skírnir
Guttormur -J. Guttormsson
83
heldur en vera, hvar sem er,
,,hámenntaður“ auli.
Guttormur var þegar í æsku bókhneigður mjög og las
allt, er völ var á af íslenzkum ritum, en síðar bæði þau á
víðtækara grundvelli og merkisrit annara þjóða, einkum
ensk og amerísk öndvegisskáld, með þeim árangri, að
hann er orðinn óvenjulega víðlesinn maður, og hefur,
þrátt fyrir örðugar kringumstæður, aflað sér ágæts og
merkilegs bókasafns, sérstaklega að úrvals skáldritum.
En fróðlegt er að kynnast því dálítið nánar, hvaða rit
hann hefur mest lesið um dagana, og jafnframt varpar
það nokkuru ljósi á bókmenntaleg hugðarefni hans. Vill
svo vel til, að upplýsingar um það efni eru fyrir hendi í
bréfum frá honum til prófessors Watson Kirkconnells,
hins kunna íslandsvinar og þýðanda íslenzkra ljóða á
enska tungu, og fléttaði hinn síðarnefndi þær inn í mjög
athyglisverða og all-ítarlega grein um skáldið í ritum
Hins konunglega vísindafélags í Canada fyrir nokkrum
árum síðan (Transactions of The Roycd Society of Canada,
Volume XXXIII, 1939). Eru þau ummæli skáldsins um þá
hliðina á sjálfsmenntun hans og bókmenntaferli á þessa
leið, í lauslegri íslenzkri þýðingu:
,,f æsku las ég íslenzkar þjóðsögur og æfintýri Jóns
Árnasonar. Með leyndardómsfullum töfrum sínum, gleði
og sorgum, hafa mér ávallt virzt þær vera endurspeglun
gjörvallrar sálar þjóðarinnar 1 þúsund ár. Ævintýri Hans
Andersens hrifu mig einnig mjög mikið, fyrst og fremst
sem skáldskapur og síðan sem hin ágætasta túlkun sann-
leikans. Sannleikurinn er aldrei sagður með yfirborðs-
túlkun á raunveruleikanum; yfirborðið er blekking ein . . .
Á yngri árum mínum hér við íslendingafljót las ég
mjög mikið af íslenzkum skáldskap og fékk hann að láni,
hvar sem þess var kostur. íslenzkur skáldskapur er slung-
inn tveim meginþáttum: annar hrjúfur og sterkur, hinn
mjúkur og mildur. Sá fyrrnefndi er norrænn, á rót sína
að rekja til Eddukvæðanna. Hinn síðarnefndi er suðrænn,
kominn frá rómantísku skáldunum þýzku. Norræni straum-