Skírnir - 01.01.1946, Page 103
Skírnir
Guttormur J. Guttormsson
101
eftirtektarverðri grein í Lögréttu (1935). Hann leiðir einn-
ig rök að því, að þau hafi verið rituð ,,úti á Nýja íslandi
samtímis eða jafnvel á undan stórmerkilegri stefnu í leik-
mennt Norðurálfu og Ameríku", og gefur með því í skyn,
að Guttormur hafi með leikritum þessum orðið brautryðj-
andi í leikritagerð. Vegna þess, hve leikrit þessi eru sér-
stæð og merkilegt bókmenntafyrirbrigði, er ætlunin, að
taka þau til ítarlegrar meðferðar í sérstakri grein.
Auðsætt er þá, þegar á allt er litið, þó að um sitthvað
hafi orðið að fara fljótt yfir sögu í þessu yfirliti, að skáld-
ið og bóndinn á Víðivöllum í Nýja Íslandi er enginn hvers-
dagsmaður á andlega sviðinu, enda er hann, eins og marg-
oft hefur verið bent á, glæsilegasta dæmi þess, hve íslenzkt
þjóðerni hefur lifað góðu lífi og íslenzk menningaráhrif
verið sterk í frumbyggðum Islendinga vestan hafs. Hann
hefur borið merki íslenzks manndóms og atgervis hátt við
himin og fram til nýrra sigra á hinum vestræna vettvangi
og með þeim hætti drjúgum aukið á hróður ættþjóðart
sinnar. Hitt er þó enn meira um vert, að hann hefur num-
ið íslenzkum bókmenntum nýtt land með yrkisefnum sín-
um, frumlegri túlkun þeirra og sérstæðum ljóðbúningi.
Slíkum landnámsmönnum í ríki andans launar þjóð vor
menningarframlag þeirra bezt og varanlegast með því að
tileinka sér í sem fyllstum mæli þau lífrænu verðmæti,
sem skáldskapur þeirra hefur að bjóða hverjum þeim, er
grefur þar til gullsins.