Skírnir - 01.01.1946, Page 164
162
Jón Steffensen
Skírrir
að Stöng því ekki getað staðið nema stutta stund án vernd-
ar vikurlagsins, þá hefur hann áreiðanlega ekki getað beð-
ið í 400 ár eftir henni. Það, sem skortir þó einna tilfinnan-
legast í sambandi við rannsóknirnar að Stöng, er, að ekki
er athuguð afstaða tóftarveggjanna til öskulaganna; sé
hún lík og á umræddum torfgarði, þá er bærinn frá miklu
eldri tíma en leirkersbrotið gæti bent til og þá fallinn allur
grundvöllur undan því að VI. lagið sé rétt árfært.
Þegar litið er á allt, sem kunnugt er um byggðina í
Stöng, þá verður það að teljast öruggt, að hún hefst þar
um líkt leyti og annarstaðar í dalnum og varla síðar en
um miðja 10. öld. Ennfremur bendir ekkert til þess, að
bær hafi verið endurbyggður þar, og torfgarðurinn í land-
areigninni sýnir, að hann hefur varla verið reistur síðar
en um miðja 10. öld og hefur staðið, er vikurlagið hlóðst
að honum, og því líklegt, að eins hafi verið um bæinn.
Reynist það rétt, þá hlýtur líka bærinn að hafa lagzt í eyði
löngu fyrir 1300. Það eina, sem mælir gegn því, er hið
fyrr um rædda brot úr leirkeri, en þar sem ekki liggja
fyrir nánari heimildir fyrir aldri þess, þá finnst mér ekki
hægt að láta það eitt ráða úrslitum.
Ég fæ ekki betur séð en að enn standi traustustu stoð-
irnar undir þeirri skoðun, að byggðin í Þjórsárdal hafi
eyðzt smám saman löngu fyrir árið 1300.