Skírnir - 01.01.1946, Síða 169
Skírnir
Afstaða láðs og lagar á síðustu árþúsundum
167
Með margvíslegum athugunum geta menn á sama hátt
kynnzt almennt starfi rennandi og fallandi vatns og sjáv-
arins við ströndina. Þessi öfl eru sístarfandi og breyta
hægt og hægt útliti landanna.
Á einum mannsaldri gætir breytinganna venjulegast
lítið, en jarðsagan er löng, og á blöðum hennar má lesa
um það, hvernig vatnið flytur fjöll í bókstaflegri merk-
ingu.
Föst skorpa hefur verið á jörðinni í meir en þúsund
milljónir ára, og á þeim tíma hefur vatn og veðrun ekki
aðeins grafið djúpa dali í hálendin, heldur öllu fremur
þurrkað út og afmáð þá fjallgarða, sem hvað eftir annað
hefur skotið upp af lítt þekktum orsökum. Á sama hátt
gerbreytast strendur landanna á stuttu tímabili í sögu
jarðarinnar, þ. e. á nokkrum tugum áramilljóna.
Það tímabil, sem aðallega ræðir um í þessari grein, tím-
inn eftir síðustu ísöld, þ. e. síðustu 10-15 þúsund árin, er
örstutt í samanburði við aldur jarðskorpunnar, og stór-
virki hafa hin eyðandi öfl ekki unnið. En tíminn er langur
í samanburði við mannsævina, og breytingar, sem umtals-
verðar séu, hafa vafalaust átt sér stað, einkum við strönd-
ina. Sjávarhamrar hafa færzt inn til lands, sandoddar
myndazt eða flutzt til, víkur fyllzt af möl og sandi o. s. frv.
Þessar breytingar eiga rannsóknir að geta leitt í ljós í ein-
stökum dráttum.
Þar, sem aðdjúpt er við opna strönd, ná bylgjur hafs-
ins óbrotnar að henni og gnauða á henni tálmunarlaust.
Sé ströndin laus í sér eða sprungin, tætir brimið hana í
sundur, enda myndar hið losnaða efni ekki hlíf, ef aðdjúpt
er, heldur berst frá landi. Við minna aðdýpi helzt lausa
efnið um stundarsakir við ströndina og getur þá aukið
niðurrifið á þann hátt, að brimið verður blandið sandi og
möl og vinnur miklu öflugar en hreinn sjór.
Gljúp hraun og eldri grágrýtislög, sem oftast nær eru
mjög sprungin og aðgreind af lausari millilögum, stand-
ast brimið illa. Hafa því víða myndazt þverhnýpt stand-
björg, þar sem hraun ná út að hafi. Sama er að segja um