Skírnir - 01.01.1946, Page 180
178
Trausti Einarsson
Skírnir
En sjór getur einnig gengið bak við kampana, sem þá
verða að rifjum. Myndast rifin helzt, ef mjög er aðgrunnt
við ströndina; brotnar aldan þá langt frá henni og hleður
upp hrygg úti á grunnsævinu. Sem dæmi um þetta má
nefna tangana, sem loka Hornafirði, eða Gömlueyri fram
undan Mýrum.
Hæð malarkambanna eða tanganna fer mjög eftir afli
brimsins á hverjum stað. Þannig eru þeir yfirleitt 5-8 m
háir við suðurströnd landsins, fyrir opnu hafi. I nágrenni
Reykjavíkur eru þeir hins vegar 3-4 m yfir meðalsjávar-
mál, og annars staðar á landinu er hæð þeirra 2-8 m, allt
eftir því, hve ströndin er opin fyrir hafinu og hinum
stærri öldum.
Nú mun ég leitast við að gefa yfirlit vfir helztu mynd-
anir af þessu tagi við strönd landsins. Fer ég þá víða eftir
korti herforingjaráðsins og nota hæðatölur, sem þar eru
gefnar á malarkömbum við sjó fram og á sandeyrum og
rifjum. í flestum tilfellum munu þessar tölur gefa rétta
hugmynd um hæð sjávarmyndananna, en einstaka tala
virðist þó fremur eiga við roksandshóla á kömbunum.
Verður tæplega komizt hjá ónákvæmni einhvers staðar,
en í heild ætla ég, að rétt hugmynd fáist bæði um hæðir
kambanna og það, hvar þeir koma fyrir á landinu, enda
reynist hvort tveggja í samræmi við þær meginreglur,
sem getið var að framan. Nánari upptalning á smærri
myndunum á ekki heima hér, enda væri það miklu fremur
verk margra manna, er skiptu ströndinni niður á milli sín
og þaulskoðuðu hver sinn hluta. Mundi þá væntanlega
margt athyglisvert koma í ljós um breytingar strandar-
innar.
Ef byrjað er á Reykjanesi og haldið austur um land,
verður fyrst fyrir Hlíðarvatn í Selvogi. Yfirborð þess er
1 m yfir meðalsjávarmáli, og lokast það af lágum, mjóum
granda, sem hlaðinn er upp af briminu.
Óseyrartangi hefur hlaðizt upp fyrir mynni Ölfusár og
er allt að 8 m hár. Svipaður tangi, en minni, er í mynni
Þjórsár; hæðin um 6 m. Nú má heita, að óslitinn kambur