Skírnir - 01.01.1946, Side 201
Skírnir
Afstaða láðs og’ lagar á síðustu árþiísundum
199
að við alla hæð þess yfir sjó, og það, sem þeir fluttu frá
miðju landsins, skildu þeir eftir út til jaðranna eða í mesta
lagi að þeir kæmu því út á grynningar við strönd landsins,
sem í þessu efni verða að teljast hluti af landinu. Það eru
því harla litlar líkur fyrir því, að nokkru verulegu muni
á þyngd landsins frá síðustu ísöld. Strandlínan ætti því að
vera svipuð nú og fyrir ísöldina, ef engin óþekkt öfl hafa
verið að verki. Strandlínan í Örfirisey sýnir, að fjöruborð
er nú hið sama og fyrir ísöldina. Þessi niðurstaða verður
varla skilin á aðra lund en þá, að núverandi staða landsins
sé mjög stöðugt jafnvægisástand, sem landið í langan
tíma hefur jafnan sótt í, er verulegt jökulfarg truflaði
ekki. Dregur þetta mjög úr almennum líkum fyrir því, að
landið sé nú að hreyfast upp eða niður í nágrenni Reykja-
víkur.
VIII. Fjöruborð eftir ísöld. Lauslegt yfirlit.
Niðurstaða þeirra athugana, sem hér hefur verið lýst
að nokkru, er á þá leið, að á síðustu árþúsundunum hefur
landið í nágrenni Reykjavíkur hvorki lyfzt né sigið, svo
að mælanlegt sé. Sama er að segja um Melrakkasléttu, og
þótt athuganir mínar séu lauslegri annars staðar, virðist
mér þó, að víðast hvar á landinu beri að sama brunni.
Innri hluti Oddeyrar við Eyjafjörð er verk öldunnar og
bendir til langrar kyrrstöðu landsins, og sama er að segja
um aðrar eyrar við Eyjafjörð. Þá benda hinar flötu eyrar
á Vestfjörðum til hins sama. Og jafnvel annað eins eld-
fjallasvæði og Vestmannaeyjar hefur ekkert haggazt á
tímabili, sem vafalaust verður að telja í árþúsundum. Það
sýnir breið, flöt malareyri inn frá höfninni, er Botn heitir.
Malartangarnir við Hornafjörð eru allt að 500 m breiðir.
Myndun þeirra hefur tekið mjög langan tíma, og sumir
hlutar þeirra hljóta að vera miklu eldri en aðrir. Þó er
þar um engan áberandi hæðarmun að ræða, svo ég viti til,
er bent gæti til f jöruborðsbreytinga, en reyndar stvðst ég
þar ekki við athugun sjálfs mín.