Skírnir - 01.01.1946, Blaðsíða 224
222
Ritfregnir
Skírnir
kvæðum (1897) og þýðingin á Pétri Gaut (1901, 1922), en sögu-
þáttunum sleppt, því að í ráði er að gefa seinna út úrval af ritum
Einars i lausu máli. í öðru bindinu eru Hafblik (1906) og Hrannir
(1913), en Vogar (1921) og Hvammar (1930) í síðasta bindinu
og í bókarauka tvær þýðingar, sem Einar hafði ekki tekið upp i
söfn sín, þótt prentaðar væru annars staðar, og fáeinar tækifæris-
vísur, sem prentaðar eru hér í fyrsta sinn, að einni frá taldri. Sleppt
er hins vegar fyrsta ljóðasmíði Einars, sem nú er til, Skálda-con-
gressinum á Parnassi — skopleik, sem varðveitzt hefur í eigin-
handarriti skáldsins og prentaður er í Blöndu 1941 — og einnig
flestum söngvum úr gamanleiknum Við höfnina. Virðist það rétt
ráðið, því að hvorugt hefur Einar ætlað til birtingar. Til eru hins
vegar frá síðustu æviárum hans fáein kvæðabrot og vísur, sem út-
gefanda mun ekki hafa verið kunnugt um, og er þó sumt af því
merkilegt og flest þess virði, að haldið væri til haga.
Framan við fyrsta bindið er alllöng yfirlitsgrein um skáldskap
Einars eftir Guðmund heitinn Finnbogason, og er hún síðasta rit-
smíð hans. Guðmundur hafði alla tið metið mikils kveðskap Einars
og samdi fyrstu ritgerðina, sem um hann var skrifuð að gagni.
Hún kom í Skírni 1905. Guðmundur hafði þá aðeins í höndum
fyrstu bók Einars og svo þau kvæði hans önnur, sem fram til þessa
tíma höfðu birzt í blöðurn og tímaritum. Allt um það kemst hann
þó nærri kjarnanum í kveðskap hans, er hann segir: ,,Einar Bene-
diktsson er huliðshyggjumaður (mystiker) í aðra röndina. I kvæð-
unum Undir stjörnum, Norðurljós, í Slútnesi og víðar er andi hans
gagntekinn af tilfinningu þess, að líf vort stendui' í nánu sambandi
við alheimslífið og dregur þaðan afl sitt, ljós og yl. Hvergi kemur
þetta fagurlegar fram en í kvæðinu um Slútnes . . Síðan hefur
Guðmundur skrifað um flestar Ijóðabækur Einars (sbr. m. a. deilu
þeirra Valtýs Guðmundssonar út af Hrönnum), en þó reyndar lítið
sem ekki að þessu meginefni vikið fyrr en aftur nú, að hann ræðir
allýtarlega um heimsskoðun Einars og vitund hans um samband
sitt við algeiminn — sem birzt hefur Einari þó aðeins sem leiftur-
skynjun á stærstu augnablikum ævi hans; þar hefur fremur verið
um að ræða óslökkvandi þrá til algerðs skilnings og fullkominnai'
skynjunar á innsta eðli og fyrsta uppruna lífsins og samstillingu
náttúrunnar — en til væri að dreifa bjargfastri innri reynslu, sem
veitt gæti honum andlega fullnægju og lífi hans jafnvægi. En í
hinum rammefldu átökum við að reyna að skynja hið yfirskilvit-
lega, komast í snertingu við guðdóminn, verða eitt með alheims-
sálinni — skapast sú spenna, er lyftir kvæðunum í himinhæðir.
í ritgerð sinni víkur Guðmundur að helztu þáttum öðrum í kveð-
skap Einars, draumsjónum hans um framtíð landsins, trú hans á
hlutverk þjóðarinnar og virðingu hans fyrir göfgi tungunnar, ræðir
um myndauðgi hans og lýsingar, stil og form, kemur víða við og