Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 47
GUÐBERGUR BERGSSON
Um ásthneigð í bókmenntum og lífinu
eins og hún er runnin undan rifjum Adams
Að áliti perúska rithöfundarins Vargas Llosa er sú iðja að semja
skáldverk eða það að skapa listaverk, almennt séð, viss tegund af
svalli eða margbrotnum ástarleik. Imyndunaraflið hefur þá, býst ég
við, samfarir við sjálft sig og umhverfið. Með andlega safanum, sem
er í mannlífinu og innra lífi einstaklingsins og sögunni, barnar það
eitthvað sem engum hefur ennþá tekist að komast að hvað er, en
það fæðist svokallað listaverk.
Sérhvert listaverk er unnið á einhverju stigi með penna eða
pensli, en þeir eru hvað táknmerkingu varðar nokkurn veginn það
sama og penis og halda gjarnalögun hans: mjókka fram í odd. Þess-
ir hlutir eða limir hafa verið oftast í höndum karlmanna, bæði í eig-
inlegri og óeiginlegri merkingu, þótt konur hafi fengið að njóta tól-
anna eftir efnum og aðstæðum hverju sinni, stundum í trássi við
vilja karlmannsins, enda hafa þær viljað beita tólunum sjálfar á sína
vísu. Þetta hefur orðið æ tíðara, eftir því sem þeim hefur vaxið ás-
megin og þær hafa fundið og viðurkennt sífellt betur að þær eru
fráleitt konur að öllu leyti, heldur kven-menn, eins og í hinni upp-
runalegu sköpunarsögu gyðingdómsins, sem ég mun víkja að síðar
í tengslum við sköpun mannsins samkvæmt gyðinglegum trúar-
brögðum og þá kristnum um leið.
I þessu spjalli um ásthneigð í bókmenntum fjalla ég einvörðungu
og almennt um bókmenntir sem eru sprottnar af gyðinglegum og
kristnum anda, en hann er gegnsýrður af þeim gríska, án þess að ég
beri þær saman við hliðstæðar bókmenntir annarra óskyldra trúar-
bragða og menningarsvæða. Eg mun einnig fjalla um ásthneigð al-
mennt séð, án þess að ég taki sérstakt tillit til hvort hana er að finna
í bókmenntum yfir höfuð, bókmenntum sem einskorða sig við
hana eða í svonefndum klámbókmenntum.