Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 230
224
KENEVA KUNZ
SKÍRNIR
handbóka og á stuðning sem hægt er að hafa af orðasöfnum og skrám um
fræðiheiti. Hins vegar eru allt of fá slík hjálpartæki til handa íslenskum
þýðendum, því miður.
Síðar í bókinni (bls. 90-91) er ekki laust við að höfundum verði sjálfum
hált á sérfræðiheitum. Þar kemur fyrir í textadæmi enska efnafræðihugtak-
ið „the noble gases" og er athugasemdarlaust látið heita „hinar göfugu gas-
tegundir“, jafnvel tekið sérstaklega fram að til að þýða fleirtöluna „gases“
sé „hin venjulega lausn [. . .] að tala um gastegundir“. Venjulega orðið er
raunar /q/ítegundir, og þessar tilteknu lofttegundir eru nefndar eðít/loftteg-
undir, eins og fljótfundið er í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Orlygs.
Næst kemur kafli um föst orðasambönd og málshætti. Eins og höf-
undarnir sýna glöggt með ýmsum dæmum, eru orðtök sérlega lúmsk og
hættuleg meðferðar í þýðingu, því að þau kalla á svo víðtæka þekkingu á
málinu sem verið er að þýða úr. Hér er umfjöllunin skýrð, eins og í öllum
köflum bókarinnar, með afbragðsgóðum (eða -slæmum) dæmum, sem
sýna svo ekki verður um villst hvílíka hættu það hefur í för með sér að láta
stjórnast um of af frumtextanum.
Það er á merkingarsviðinu sem misskilningur kemur oftast fyrir hjá þýð-
endum, og þótt rangþýðingar segi ekki alla söguna um þýðinguna eru þær
alltaf hvimleiðar (þótt þær virðist oft skemmta sjónvarpsáhorfendum
margfalt betur en þátturinn sjálfur). Það er því vel við hæfi að höfundarnir
leggja aftur áherslu á þessi atriði í lokaorðum bókarinnar:
Algengustu glappaskot í þýðingum virðist mega rekja til þess að
þýðandi hefur í hita augnabliksins talið sig skilja það sem hann skildi
ekki alveg réttum skilningi. Því getur það verið síðasta boðorð þýð-
andans: Gefðu þér tíma til að sannfæra þig um að þú hafir skilið
frumtextann rétt! (bls. 119)
Sá á kvölina
I fjórða kafla er allnokkuð rætt um þá nauðsyn að gæta þess að ekkert þýð-
ingarbragð finnist í orðavali, orðalagi og setningagerð, enda mjög algengt
að frumtextinn móti málfar þýðingarinnar um of.
Það hefur að vísu löngum verið deilumál meðal þýðenda að hve miklu
leyti þýðing eigi að hljóma eins og hún væri frumsmíð, eða hve glöggt hún
eigi að bera einkenni þeirrar framandi menningar sem gat af sér frumtext-
ann. Til eru þýðendur eins og Vladimir Nabokov (sem hefurþýtt meistara-
verk eftir Púsjkín og fleiri rússnesk skáld), sem mæla með mjög nákvæmum
og jafnvel orðréttum þýðingum, allt eins þótt þær séu hrjúfar og óþjálar,
sem og með umfangsmiklum skýringum er fylgi þýðingunni. Slíkar þýð-
ingar geta haft óvenjulegan eða útlenskulegan blæ, sem sumir telja mikil-
vægt að varðveita til að minna lesandann á, að hann sé að lesa þýðingu.