Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 232
226
KENEVA KUNZ
SKIRNIR
legu boða; hann kappkostar að láta þau gegna samsvarandi eða jafn-
gildu hlutverki (e. „function") í „nýjum“ texta á öðru máli.4
Höfundarnir benda á ýmis sérkenni í textum sem þarf að endurskapa eða
skila áfram til nýrra lesenda. Þýðendur, segja þeir, verða a. m. k. að velta
fyrir sér, ef ekki svara fullkomlega, spurningum eins og hvaða stíleinkenna
gætir hér og hvernig megi skila þeim áfram, hvaða afstöðu höfundurinn
taki til efnisins, fyrir hvern þetta sé skrifað og hvort taka þurfi tillit til þess
að forsendur lesenda séu aðrar en þeirra sem frumtextinn var ætlaður.
Takist að svara þessum spurningum samviskusamlega er búið að
sigrast á mikilvægum þætti: Það er búið að greina textann fyrst á er-
lenda málinu og síðan er búið að skilgreinar forsendur hans á málinu
sem á er þýtt. Þá er hægt að hefjast handa, velja hugsuninni rétt og
skynsamleg orð og setja hana á blað. (bls. 74)
Hér er verið að tala um margfalt stærri og flóknari spurningar en í hinum
köflunum, og ekki er alveg laust við að umfjöllunin verði dálítið ómarkviss,
ef ekki ruglingsleg á stöku stað, t. d. á bls. 71-74, þar sem mætti gera skýrari
grein fyrir hugtökum eins og ritmálsvenju, stíl, eðli ritmáls, stílblæ og
málsniði. A þessum stað kemur líka tilfinnanlega í ljós hve höfundarnir
hafa sniðið þýðingarfræðilegri umfjöllun sinni þröngan stakk.
Sjöundi kafli, þar sem fjallað er um ýmiss konar vanda sem kemur fyrir
við þýðingu nytjatexta, sýnir glöggt hve erfiðar slíkar þýðingar geta reynst,
þótt oftast hafi þær verið taldar mun auðveldari viðfangs en fagurbók-
menntatextar. Höfundarnir benda á, að aðrar áherslur ráða ferðinni þegar
um faglega þekkingu er að ræða; þessir textar gera miklar kröfur um ná-
kvæmni, sérhæfð hugtök verður að þýða og/eða útskýra og yfirleitt þarf að
breyta orðaröð eða setningaskipun í þýðingu til að forðast þunglamalegan
„nafnorðastíl“. Aftur á móti, segja þeir, getur verið lítil sem engin ástæða
til að reyna að halda stíl höfundarins. Góðar vinnuaðferðir til að þýða
nytjatexta eru þeim mun mikilvægari sem þessum þýðingum fer ört fjölg-
andi.
Umræðan í áttunda kafla snýst um viðhorf þýðenda í tímans rás og skoð-
uð eru þau sérstöku vandamál sem menn glíma við þegar þeir reyna að þýða
fagurbókmenntir. Þótt fræðileg umfjöllun sé hér af skiljanlegum ástæðum
takmörkuð, reifa höfundarnir margar áleitnar spurningar um leið og þeir
veita dálitla innsýn í nokkur meginhugtök þýðingarfræðinnar og benda á
hentugar bækur til að fylgja málum eftir, ef forvitni lesenda hefur verið
vakin. Síðustu síðunum verja Heimir og Höskuldur í vinnureglur handa
þýðendum, þar sem aðalatriði umfjöllunar þeirra eru dregin saman á einum
stað.