Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 247
SKÍRNIR
MANNFRÆÐI OG SAGA
241
virk meðul og Byock vill vera láta. Hitt er auðvitað rétt að ófriður jókst
mjög um 1235 og hernaður varð umfangsmeiri en fyrr enda voru þákomnir
fram fleiri voldugir goðar en nokkru sinni höfðu verið samtímis á landinu,
með burði til að safna saman miklum mannfjölda til herferða. En munurinn
á síðari hluta 12. aldar og tímabilinu 1235-1255 er kannski fremur stigs-
munur en eðlismunur að þessu leyti. A seinna tímabilinu reyndu menn líka
að leita sátta og lögðu mál í gerð, en málafærsla var úr sögunni enda dómar
lítt starfandi að líkindum og milliganga ekki virk. En var hún endilega virk-
ari á 12. öld? Spyrja má hvort milliganga og sættir hafi verið vænleg leið til
að ná friði nema til væru menn eins og Guðmundur ríki, Jón Loftsson og
Noregskonungur sem höfðu völd og áhrif til að tryggja að gerðir væru
virtar? Voru málafærsla og miliiganga ekki oftast, bæði fyrr og síðar, að-
ferðir til að fresta vígum og höfðu þær ekki þegar allt kom til alls fyrst og
fremst þau áhrif að mál drógust á langinn en leystust ekki?
Byock segir að höfðingjar sem beittu ofbeldi og sýndu ójafnað en virtu
ekki sættir hafi fengið aðra höfðingja á móti sér og rekur dæmi þess úr Is-
lendingasögum (sbr. bls. 128). Engu að síður komust menn eins og
Hvamm-Sturla og Guðmundur dýri upp með að yfirbuga andstæðinga
sína í hernaði. Guðmundur gekk jafnvel af andstæðingi sínum dauðum.
Þeir virðast hins vegar hafa valið rétta stund til þess að beita ofbeldi, borið
pólitískt skynbragð á það hvenær þeim var óhætt að gera þetta án þess að
vekja andúð almennings og fylkja öðrum höfðingjum gegn sér. Andstæð-
ingur Sturlu virðist hafa verið ófimur við þetta en þess verður að gæta að í
Sturlusögu og Guðmundar sögu dýra eru mál skoðuð af sjónarhóli þessara
höfðingja en ekki andstæðinga þeirra, sem eru sýndir sem meiri ofbeldis-
menn. Geitir Lýtingsson og Snorri goði eru dæmi um höfðingja sem ryðja
andstæðingum sínum úr vegi og komast upp með það. Byock rekur mál
þeirra Geitis og Brodd-Helga og Snorra og Arnkels goða allýtarlega í bók
sinni. Peir Snorri og Geitir voru ekki síður ágjarnir til fjár og valda en
andstæðingar þeirra en kunnu þá list að bíða síns tíma. Niðurstaða Byocks
er að hinir ofbeldissamari (Brodd-Helgi, Arnkell) hafi þurft að gjalda fyrir
yfirgang sinn, þjóðfélagið hafi refsað þeim, jafnvægi hafi verið náð (bls.
202, 220). Engu að síður var það ofbeldi en ekki sættir sem bundu endi á
málin og juku völd og áhrif þeirra Geitis og Snorra, svo að óvíst er um jafn-
vægið.
Athyglisvert er að Byock telur fall Arnkels og Brodd-Helga hafa verið
sigur bænda. Hann lítur svo á að bændur hafi losað sig við ofbeldisseggi
með því að leita til goðanna Geitis og Snorra og biðja þá að annast mála-
færslu. Það kemur fram að Byock telur stéttarmun goða og bænda lítinn
(sbr. bls. 114,119) enda hafi bændur getað rakið mál sín sjálfir ef þeir vildu
(sbr. bls. 112, 125, 129-30). Þetta er þó óljóst enda segir Byock að bændur
hafi kosið að leita til goða um málafærslu þar sem þeir hafi notið sérstöðu
(sbr. bls. 165-7). Stundum er helst að skilja að goðarnir hafi starfað sem
eins konar lögfræðingar og málafærslumenn en annars staðar kemur fram
Skímir -16