Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 56
50
GUÐBERGUR BERGSSON
SKÍRNIR
tekist að mjaka huga mannanna nær sannleikanum um lífið, vegna
þess að lesendur þora að nálgast verk þeirra að þeim látnum, sökum
almennrar ásthneigðar til líka og hugsana afburðamanna.
En hverjir eru leyndardómar lífsins á sviði sköpunar úr orðinu?
Því er ekki auðsvarað. I okkar gyðinglegu og kristnu trú er til óljós
vísbending um hvernig guð stóð að sköpuninni, að gerð heims,
manns og konunnar. Við höfum samt enga hugmynd um af hverju
hann réðst í það að skapa, fremur en við vitum í rauninni hvers
vegna menn yrkja ljóð eða skrifa skáldsögur. Guð fór samt að með
svipuðum hætti og skáldin, hann skapaði heiminn fyrst, eins og rit-
höfundurinn skipuleggur undirstöður verksins. Síðan bíður hug-
urinn í myrkri, meðan það kraumar í „moðinu“. Þá segja báðir:
Verði ljós!
Jafn skjótt verður tíminn til, vegna þess að hann er í senn ljós-
magn og hreyfing, en hugsanir eru innyfli tilverunnar. Að svo
búnu birtast persónurnar á sviðinu: í tímanum, birtunni og and-
rúmsloftinu.
Og núna ber mig í lokin að Adam og vanda hans, höfuðpersónu
sköpunarverksins, vegna þess að allt er runnið undan rifjum hans.
Hvorki Biblían né við vitum af hverju guð fann þörf hjá sér til að
skapa Adam, annan karlmann en hann, ef guð er þá karlkyns. Hann
er líklega tvíkynja eins og maðurinn var eflaust í upphafi eða
fruman. Það þótti hneyksli á sínum tíma þegar ég gerði hann
kvenkyns í einni af fyrstu bókum mínum, sem spratt af barnatrú
minni: ef andskotinn sótti á guð hlaut hann að vera kona, enda
fannst mér þá að konur væru látlaust fyrir barðinu á djöflinum. En
hvað sem því líður eru uppi ýmsar sögur um sköpun mannsins
meðal Gyðinga, einkum kabalistanna. Eg ætla að rekja eina slíka
stuttlega og leggja síðan áherslu á hana með sögubroti eftir ítalska
rithöfundinn Primo Levi.
Eins og allir vita var Lilit fyrsta eiginkona Adams, og hér kemur
einfölduð saga hennar:
Skömmu eftir að guð hafði skapað Adam sá hann að kynlegar til-
finningar fóru að bærast innra með nýskapningnum. Hann engdist
af þörf fyrir aðra mannveru, vegna þess að nærvera hans við guð
varð honum ekki nóg. Adam svipaðist um í einsemd sinni en sá
engan. Þá rak hann augun í skuggann af sér, brann af fýsn til hans