Skírnir - 01.04.1989, Blaðsíða 176
170
ÖRN ÓLAFSSON
SKÍRNIR
ræður. Gjarnan eru furðulegir atburðir meðhöndlaðir eins og sjálf-
sagðir væru, framliðnir ganga um meðal lifandi, o. fl. þ. h. Stefnu
Einsteins má kalla huglægan expressjónisma, en hitt hlutlægan,
sem Döblin boðaði. Hjá táknsögumönnum eins og Kubin, Meyr-
ink og Kafka sameinast þessir tveir meginstraumar expressjónism-
ans þannig, að þessi hugmyndaframsetning er í formi umhverfis-
lýsinga, sem greinilega hafa táknrænt gildi. En hjá Kafka eru táknin
margræð, hugmyndirnar ekki beraðar, alvitrum sögumanni byggt
út með því að sýna atburðarásina mjög hlutlægt, sögumaður gerir
engar athugasemdir við hana.
Báðum straumum er sameiginlegt að rísa gegn natúralismanum,
sem þótti hafa haugað upp ómerkilegum smáatriðum ytri veru-
leika. I staðinn átti nú að koma sönn mynd heimsins, en hún gat þá
aðeins risið í sál manna. Pví hlaut hún að verða einstaklingsbundin,
hvort sem svo framsetningin var huglæg eða hluilæg; og að byggj-
ast á samþjöppun, í stað þess að sanka saman fyrirbærum sem áttu
að gefa heildarmynd.23 En af þessu leiðir megineinkenni express-
jónísks sögustíls, að hneigjast til stuttra setninga, sem eru þrungnar
merkingu. Einnig er orðalag stundum brenglað, og það sýnir það
viðhorf að heimurinn sé í rauninni brenglaður. I stað röklegrar
orðaskipunar, sem sýnir umhverfi í röklegu samhengi, kemur
straumur hliðstæðra setninga sem sýna hugrenningatengsl og til-
finningu fyrir samhengisleysi í tíma. Þessi stíleinkenni eru raunar
ekki á sögum Kafka, Musils, Meyrinks og Kubins, svo dæmi séu
nefnd, en þær eru þá þeim mun expressjónískari hvað varðar sjón-
arhorn, byggingu og frásagnarform. Einstein taldi að fallegan stíl
bæri að forðast, því hann fegraði raunveruleikann og veitti honum
þannig viðurkenningu, en bæri þess í stað að rísa gegn honum. I
hans huglæga expressjónisma er styttingastíllinn af tagi kjarnyrða
(afórisma), þ. e. almennar hugleiðingar drottna yfir atburðarásinni.
En í hlutlægum expressjónisma birtist þetta fremur í hliðstæðum
aðalsetningum, þar sem sleppt er óþörfustu orðum (svo sem greini
og sögninni að vera). Hjá Döblin leiðir þetta stíleinkenni af þeirri
stefnu að láta sem minnst fara fyrir sögumanni. Pví eru ekki auka-
setningar með útskýringum og orsökum, en „fegrandi líkingar“,
sem t. d. Georg Heym notaði mikið, vildi Döblin láta hverfa, því
þær drægju fram ákveðið sjónarmið gagnvart söguefninu. Samt