Skírnir - 01.04.1993, Blaðsíða 36
30
FRIEDRICH NIETZSCHE
SKÍRNIR
fyrir sjónir almennings fyrr en seint og um síðir. Síðast en ekki síst var
það lengi útbreidd skoðun, að túlka bæri einkum síðustu verk
Nietzsches í ljósi þess að hann sturlaðist árið 1890, þ.e. sem marklaust
„geðveikishjal". Hvað varðar aftur á móti hina eiginlegu túlkunarsögu,
er það alkunna að hugmyndafræðingar þýska nasismans, og raunar alls
evrópska fasismans, „eignuðu" sér ýmsar hugmyndir Nietzsches, slitu
þær úr samhengi, skrumskældu og slógu fram sem vígorðum síns eigin
áróðurs. Eftir stríðslok var heimspeki Nietzsches að því er virtist óafmá-
anlega þessu marki brennd og er því ofur skiljanlegt að umfjöllunin um
verk hans hafi, einkum í Þýskalandi, í alllangan tíma eftir 1945 verið var-
kár og feimnisleg. Á þessu varð ekki veruleg breyting, ef horft er framhjá
fáeinum undantekningum, fyrr en á 7. áratug aldarinnar og réð þar um
mestu útkoma tveggja verka, í Þýskalandi tveggja binda verks Martins
Heidegger, sem einfaldlega ber heitið Nietzsche (1961), og í Frakklandi
bókar Gilles Deleuze, Nietzsche et la philosophie (1962). Með þessum
tímamótaverkum í túlkunarsögu Nietzsches var loks kveðin niður sú
hæpna skoðun, að hann væri fyrst og fremst höfundur hugmyndarinnar
um „ofurmennið“ í gervi hins „ljóshærða villidýrs" (það er ekki ótrúlegt
að þessir lífseigu fordómar hafi átt sinn þátt í því að á Islandi var, þar til
fyrir skemmstu, litið á fræði Nietzsches sem heldur léttvæga speki og
eiga ritstjórar Skírnis þakkir skyldar fyrir að stíga fyrsta skrefið í mál-
efnalegri umfjöllun með útgáfu þessa heftis).
Skemmst er frá því að segja að á miðjum 7. áratugnum upphófst sam-
tímis í Frakklandi, Þýskalandi og á Italíu mikill endurreisnartími í túlk-
un á heimspeki Nietzsches, sem enn er ekkert lát á, og einkenndist öðru
fremur af þremur sjónarmiðum: I fyrsta lagi var Nietzsche nú tekinn al-
varlega sem fmmspekigagnrýnandi, í öðru lagi sem einhver skarpskyggn-
asti og framsýnasti heimspekingur nútímans og íþriðja lagi sem róttækur
siðferðisgagnrýnandi. Skal nú stiklað á stóru og farið fáeinum orðum um
tvö fyrstu sjónarmiðin, en um siðferðisgagnrýnina er fjallað í ritgerð Vil-
hjálms Árnasonar á öðrum stað í þessu hefti Skírnis.
Hvað fyrsta sjónarmiðið varðar má geta þess að til skamms tíma
spannst mikil umræða um það meðal fræðimanna, hvort líta skyldi á
viljahugtak Nietzsches og kenningu hans um að hvati og framvinda alls
lífs sé „viljinn til valds“, sem frumspekilega kennisetningu um „eðli“
gervallrar tilverunnar, eins og Heidegger hélt fram, eða hvort Nietzsche
hafi einmitt tekist að sprengja utan af sér höft frumspekinnar og opna
þannig nýjar víddir og ókannaðar leiðir fyrir hugsunina. Hér er ekki rúm
til að gera grein fyrir þessum sjónarmiðum en óhætt er að fullyrða að
það voru ekki síst þessar vangaveltur sem hrundu af stað sjálfstæðum
beimspekilegum tilraunum höfunda á borð við Michel Foucault, Jacques
Derrida og áðurnefnds Gilles Deleuze.
Önnur stór spurning sem vaknaði meðal fræðimanna um leið og haf-
ist var handa fyrir alvöru við að rannsaka frumspekigagnrýni Nietzsches,