Skírnir - 01.04.1993, Blaðsíða 229
SKÍRNIR
MEÐ ÍSLAND Á HEILANUM
223
gestgjafanum með þessum orðum: „Herra Steffensen er á níræðisaldri.
Okkur reyndist ekki erfitt að átta okkur á persónuleika hans. Þar er hé-
góminn ríkjandi eiginleiki" (s. 91). Hann getur einnig dansleiks sem
Reykjavíkurbær stóð fyrir í tilefni af komu þeirra þar sem menn snæddu
„kalt kindakjöt, nautakjöt, og svínakjöt, osta, smjör, kex og vín,“ og síð-
an tóku menn lagið á báða bóga, atriði bresku gestanna var „hjáróma út-
gáfa af God Save the King.“ Síðan „var víni skenkt í glösin og dömurnar
árnuðu Sir G. Mackenzie heilla með því að syngja saman lítið snoturt lag
sem lauk á fagnaðarhrópi sambærilegu hinu enska huzzah.“ Veisluhöld-
in stóðu „til klukkan hálf fimm um morguninn. Við bæði hófum og luk-
um gleðskap okkar í geislum sólarinnar." Holland getur þess að lokum
að margir gestanna hafi „yfirgefið húsið ögn reikulli í spori en þegar þeir
komu. I þeim hópi var hinn æruverðugi faðir, biskupinn yfir Islandi, sem
virtist ögn snortinn af veigum kvöldsins" (s. 104-5).
Kankvís vanþóknun Hollands á drykkjuskap biskupsins, sem fram
kemur í áherslunni á virðulegum titli hans, slær á hárrétta strengi. Hol-
land skopstælir ráðsetta siðapostula sem látið hefðu hneykslun sína í ljós
í orði eða verki. Kímnar lýsingar Hollands á kvöldverðinum, þar sem
menn höfðu vaktaskipti við snæðinginn, á skálræðunum og söngvunum
sem fluttir voru af „ástríðu“, og á óskipulegri þvögunni úti á dansgólf-
inu, sjá til þess að kvöldið stendur manni ljóslifandi fyrir hugskotssjón-
um. Við annað tækifæri, á árlegum laxveiðidegi Reykvíkinga, greinir
Holland frá slagsmálum milli Savignacs og nokkurra Islendinga.
Savignac slær fyrst einn íslendinginn og „samstundis réðust nokkrir
veiðimannanna á hann. [...] Reykvíkingar hata og hræðast herra
Savignac“ (s. 226). Savignac átti einnig í útistöðum við nýskipaðan um-
boðsmann Phelps út af verslunarvörum (þær voru tundrið sem kveikti
„byltinguna" ári áður), byssum var brugðið á loft og þurfti að kalla á Sir
George sjálfan til að skakka leikinn. Ástandið hefur Íítið breyst frá sumr-
inu áður, nema hvað Jörgensen, maðurinn sem Mackenzie segir að hafi
stofnað til „byltingarinnar," er horfinn af vettvangi. Afhverju minnist
Mackenzie aldrei á Savignac? Kannski vegna þess að ef hann lýsti at-
höfnum þessa ógeðfelda manns sumarið 1810 yrði hann jafnframt að
breyta frásögn sinni af „byltingunni" 1809 og þeim dómi að Jörgensen
bæri þar einn sök.
Bók Hollands gefur okkur fyllri mynd af leiðangri Mackenzies og
veitir okkur næmari skilning á félagslegu og pólitísku andrúmslofti í
Reykjavík árið 1810. Það er ennfremur skerfur Hollands til bókar
Makenzies, sérstaklega „Inngangsritgerð" hans, sem veldur því að bókin
er jafn mikilvæg og hún er. Titill ritgerðarinnar gefur aðeins til kynna að
hún standi í upphafi bókarinnar, þar er ekkert gefið í skyn um hæfni
Hollands til að fjalla um sögu og bókmenntir íslendinga frá landnámi til
loka átjándu aldar. Hann hafði lesið Snorra Eddu og Sæmundar Eddu og