Skírnir - 01.04.1993, Page 65
SKÍRNIR
VIÐ RÆTUR MANNLEGS SIÐFERÐIS
59
um siðferðiskröfum. Þess vegna boði báðir mikilvægi þess að ein-
staklingurinn lifi sem undantekning.
Ymsum stoðum má renna undir þetta viðhorf Maclntyres, en
mér sýnist það samt ekki vænlegt til skilnings á hugmyndum
Nietzsches og Kierkegaards. Eg held að það sé nánast aukaatriði
fyrir þeim báðum hvort hægt sé að réttlæta eða grundvalla sið-
ferðisdóma með rökum skynseminnar. Því jafnvel þótt það sé
hægt og það sé gert, er allt eftir sem máli skiptir fyrir mannlegt
siðferði - og það er að vera heil manneskja. Það verkefni verða
menn að takast á við á lífsleiðinni, hvort sem einhver siðfræði er
til eða ekki. Raunar getur siðfræðin flækzt fyrir mönnum eins og
Aristóteles benti á. Mönnum hættir til að
draga sig inn í skel fræðanna, halda að þeir séu heimspekingar og verði
réttlátir af því. Þeim ferst því eins og sjúklingum sem hlusta vel á ráð
læknisins, en hlýða þeim ekki. Líkt og hinir síðarnefndu fá ekki lækn-
ingu með því að ástunda slíkt líferni, þá verða hinir fyrrnefndu engu
betri á sálinni með því að ástunda slíka heimspeki.40
I viðleitninni til þess að verða heilsteypt manneskja eru það rök
mannlífsins sem gilda, lífssaga einstaklingsins frá bernsku til
manns. Markmiðið er sálarheill einstaklingsins og hún er við-
fangsefni lífsspeki þeirra Kierkegaards og Nietzsches. Hvor með
sínum hætti eru þeir uppteknir af sektarkennd og lífsþjáningu
manneskjunnar. Það er eflaust engin tilviljun að þeir áttu báðir
við vanheilsu og sálarháska að stríða, enda verður þeim tíðrætt
um sjúkdóma og heilbrigði. Nietzsche segir berum orðum að vilji
hans til lífs og heilsu hafi orðið honum að heimspeki (EH Af
hverju ég er svona vitur, 2). Hann sjúkdómsgreinir þrælasiðferðið
og ætlar ofurmenninu það hlutverk að hleypa heilnæmu lofti inn
í vistarverur vestrænnar menningar.41 Kierkegaard skrifaði um
sjúkdóminn til dauðans, örvæntinguna og hugsýkina, sem ein-
ungis trúarlegur tilvistarháttur á lyf við. Endurtekningin og amor
40 Aristóteles, Siðfrxði Nikomakkosar (Ethica Nicomacchea), II. bók, 4. kafli,
1105b 13-18.
41 Nietzsche notar mikið líkingamál um vont og gott loft og sjálfur gerði hann
sér far um það, heilsunnar vegna, að vera sem mest í heilnæmu fjallalofti.