Skírnir - 01.04.1993, Blaðsíða 283
SKÍRNIR
ÍSLENZK ORÐSIFJABÓK
277
á hina mikilvægu orðmynd teiva á hjálminum frá Negau]; þar er og
nefndur skyldleiki þess við gr. Zeus [sic], lat. JiTpiter, díus „guðlegur",
deus, find. dyáus, fír. die, dia „dagur“ og lith. diévas; hins vegar er ekkert
sagt um orðmyndunarfræðilegt samband eða merkingarfræðilega þróun
tilfærðra orða; að lokum er orðið ranglega leitt (beint) af rótinni *dei{á)~
[f’dejhi-] „skína [glampa, blika]“.
2
Það var ekki að ófyrirsynju að Ásgeir Blöndal Magnússon færðist það í
fang að semja nýja íslenzka orðsifjabók.5 Áður hafði aðeins verið til ein
bók sem fjallar jafnt um orðaforða íslenzks nútíðarmáls sem fornmáls.
Hér er átt við upprunaorðabók Alexanders Jóhannessonar sem kom út í
heftum á árunum 1951-1956.6 Þessi bók byggist að mestu leyti á saman-
burðarorðabók Walde & Pokornys7. Þar hafði meginhluta efnis verið
safnað um aldamótin síðustu. Uppflettiorð eru indóevrópsku ræturnar,
tilfærðar eftir röð bókstafanna í hinu indverska nágan-stafrófi. Alexand-
er fannst viðeigandi að hafa þessa tilhögun (sem Pokorny gaf síðar sjálf-
ur upp á bátinn8) í íslenzkri orðsifjabók. En til þess að auðvelda mönn-
um notkun hennar bætti hann þó „alfabetískri" orðaskrá aftan við.
Sennilega hefur vakað fyrir honum að með því að raða orðum eftir indó-
evrópskum rótum kæmi skýrar fram hve margar þeirra eru varðveittar í
íslenzku. En með útreikningum sínum hafði Alexander komizt að þeirri
niðurstöðu að íslenzkan hefði varðveitt 1264 af 2201 frumrót indó-
evrópskunnar eða 57,45%, og þar sem það væri meira en í nokkru öðru
máli samtímans væri „íslenzk tunga að þessu leyti merkilegust allra
indógermanskra mála“9. - Þrátt fyrir að orðabók Alexanders hafi aldrei
svarað kröfum tímans er hún þó að ýmsu leyti gagnleg, sérstaklega vegna
þess hve ítarlega orðmyndir annarra indóevrópskra mála eru tengdar ís-
lenzkum orðaforða.
í orðsifjabók Ásgeirs Blöndals eru um 25.000 uppflettiorð, en auk
þeirra er fjöldi annarra orða sem vísað er til í meginmáli. Er hér um veru-
lega aukningu að ræða gagnvart orðabók Alexanders sem tilfærir u.þ.b.
5 Enda þótt orðsifjabók sé mjög ónákvæm þýðing á lexicon etymologicum (sbr.
nmgr. 1), mun ég nota það orð af og til hér á eftir.
6 Islándisches etymologisches Wörterbuch, Bern 1951-1956.
7 A. Walde/J. Pokorny, Vergleichendes Wörterbuch der indogermanischen
Sprachen, Berlin - Leipzig 1926-1930.
8 Þ.e.a.s. í Indogermanisches etymologisches Wörterbuch (hér á eftir skammstaf-
að IEW.), Bern 1959.
9 Alexander Jóhannesson, Um frumtungu Indógermana og frumheimkynni,
Reykjavík 1943, bls. 17.