Skírnir - 01.04.1993, Blaðsíða 203
SKÍRNIR SAGNFRÆÐIN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ
197
Sannleiksleit er vissulega aðferð sagnfræðinnar, og í vissum skiln-
ingi er markmið sannleiksleitar að finna sannleika. En það getur
ekki verið annað en áfangamarkmið og þannig hluti af aðferðinni,
leiðinni að æðra, gildara marki, að gera líf okkar nokkru betra.
Agreiningur Más við mig virðist mér að hluta til sprottinn af
því að hann dragi rangar ályktanir af túlkun minni á eðli fræði-
greinarinnar. Hann les út úr máli mínu þá skoðun að það sé búið
að rannsaka nóg í sagnfræði: „Gunnar heyrist mér segja: „Ég
gefst upp!“ Ef markmið sagnfræði er að gera lífið bærilegt og
sýna fólki hvað þetta er nú allt saman ferlega skrýtið, bæði „við“
og „hinir" í tíma og rúmi, er engin þörf á frekari rannsóknum"
(442). „Þá skiptir ekki máli [...] hvort aftökur fyrir blóðskömm
hófust í norðurhluta Evrópu undir lok 15. aldar fyrir áhrif frá
Rómarrétti eða vegna hugmyndatengsla við trúvillu, heldur nægir
að segja að hér áður fyrr, um það bil á 17. og 18. öld, hafi fólk
verið tekið af lífi fyrir tiltekna glæpi sem ekki kæmi til greina að
telja til alvarlegra afbrota nú, þar á meðal blóðskömm. Eitthvað
var hræðilegt áður, en er það ekki lengur. Það er allt og sumt og
við öndum léttar" (442-43).
Nei, ég var ekki að gefast upp. I fyrsta lagi væri það ekki upp-
gjöf þótt maður kæmist að raun um að búið væri að rannsaka
nóg. Sá sem hættir að slá af því að honum finnst vera komið nógu
mikið í hlöður sínar, hann er ekki að gefast upp. Hins vegar
kynni hann að vera helst til skammsýnn eða nægjusamur, og það
held ég raunar að eigi við þann sem heldur að nú sé komið nóg af
sagnfræðirannsóknum. Ein ástæða þess er sú að saga verður sann-
færandi og áhrifamikil við það að verða nákvæm, skiljanleg og
röklega samhangandi. Þannig má lengi halda áfram að bæta sögu-
lega þekkingu okkar, sennilega endalaust; við Islendingar eigum
að minnsta kosti langt í endimörk þeirrar iðju. Einberar staðhæf-
ingar, á borð við þá sem Már tekur sem dæmi, þær verða aldrei
lærdómsríkar eða máttugar, né skemmtilegar. Þær hreyfa ekki við
nokkrum manni. Enginn getur heldur sagt til um það fyrirfram
hvaða þekkingaratriði kann að varpa ljósi á annað og hjálpa til að
skapa áhrifamikla sögu. Því væri þröngsýni að ætlast til þess að
hver rannsakandi stefndi að því hvern dag að finna eitthvað sem
varpaði ljósi á framandleika tilverunnar. í grein minni var ég að