Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Blaðsíða 19
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 5. tbl. 86. árg. 2010 15
nægilega langt niður á hálsinn og ég hef
átt í mestu vandræðum að fá þær til að
tolla almennilega. Þegar maður er hárlaus
er hálsinn ber og manni verður kalt. Ég
hef því vafið silkiklút um höfuðið og set
húfu yfir. Það er full þörf á því að auka
framboð á höfuðfatnaði sem hentar fyrir
hárlausar konur því sá hópur fer því miður
stækkandi,“ segir Björg enn fremur.
Atvinnumissir
Björg syndir á hverjum morgni og bendir
hlæjandi á að það væri ekki auðvelt fyrir
konu með álímdar augabrúnir að fara í
sund. Hún er meðvituð um heilbrigðan
lífsstíl og hefur alltaf borðað hollan
og góðan mat. „Ég reyni að sneiða
hjá óhollustu. Borða helst ekki unnar
matvörur þótt ég geri undantekningu
með hangikjöt á jólunum. Ég dvaldi um
tíma á heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og
þar var mjög gott að vera. Ég hef alltaf
borðað mikið af grænmeti og ávöxtum
þannig að það var ekki af óhollustu sem
ég fékk krabbamein,“ bætir hún við.
„Þegar ég fór á þennan
fund hvarflaði ekki að mér
að það ætti að reka mig.“
Þegar efnahagshrunið skall yfir landið
missti Björg vinnuna eftir áratuga starf
í Landsbankanum. Það var í október
2008. „Tveimur dögum áður en ég var
rekin var öllum í minni deild í bankanum
tilkynnt að við myndum halda okkar
störfum. Við þyrftum því ekki að hafa
áhyggjur. Ég var síðan boðuð á fund
klukkan hálffimm á föstudegi með
tveimur framkvæmdastjórum bankans og
þar var mér sagt upp störfum. Ástæða
þess var sú að sama morgun hafði ég
sagt í kaffitíma með samstarfsmönnum
að yfirmenn bankanna ættu að bera
ábyrgð á því sem þeir hefðu gert. Þessi
orð mín bárust til eyrna yfirmanna með
þessum afleiðingum. Þegar ég fór á
þennan fund hvarflaði ekki að mér að
það ætti að reka mig. Fram kvæmdastjóri
starfs mannasviðs tjáði mér að ég hefði
neikvætt viðhorf til yfirmanna og ég fengi
ekki starf í „nýjum banka“. Annar þessara
manna, sem rak mig, var sjálfur rekinn
stuttu síðar fyrir meint misferli í starfi.
Þetta var mikið áfall fyrir mig, sérstaklega
vegna þess að ég átti bara tvö ár eftir til
að ná eftirlaunaaldri samkvæmt 95 ára
reglum eftirlaunasjóðs bankamanna. Mér
var boðinn starfslokasamningur sem ég
varð að sætta mig við. Ég hafði starfað
töluvert í félagsmálum starfsmanna í
gegnum árin, meðal annars í kjaramálum
sem formaður starfsmannafélagsins, og
vissi nákvæmlega hvaða rétt ég hafði. Ég
fékk hins vegar ekki frest til að fara betur
yfir samninginn,“ segir Björg sem var á
leið í leikhús þetta kvöld. Slík skemmtun
var henni ekki ofarlega í huga þegar hún
gekk út af vinnustað sínum um margra
ára skeið þennan dag.
Úr banka í listsköpun
Þegar Björg hætti að vinna lét hún gamlan
draum rætast og fór að læra að mála.
Hún sótti námskeið í Myndlistarskóla
Kópavogs og nú er hún í hópi kvenna
í Garðabæ sem nema myndlist saman.
Einnig stundaði hún nám í hönnun og
listum í Iðnskólanum í Hafnarfirði sl. vetur.
Björg er með vinnustofu á Garðatorgi í
Garðabæ ásamt sjö öðrum listakonum
og dvelur þar löngum stundum og málar.
„Í myndlistinni hef ég kynnst mörgu góðu
fólki og mér finnst alveg frábært að hafa
þetta áhugamál. Það deyfði áfallið við að
missa vinnuna,“ segir þessi duglega kona
að lokum.