Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Side 58

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2010, Side 58
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 5. tbl. 86. árg. 201054 Höfundur bókarinnar Illness: The Cry of the Flesh er dr. Havi Carel. Hún er heimspekingur og fyrirlesari við Háskólann í Bristol í Englandi. Rannsóknir hennar hafa meðal annars fjallað um hvernig skilningur fólks á dauðanum hefur grundvallaráhrif á hvernig það lifir lífinu. Hún gaf út bókina Life and Death in Freud and Heidegger árið 2006. Einnig er hún meðhöfundur bókarinnar What Philosophy Is og er meðþýðandi bókarinnar The Order of Evils eftir Adi Ophir. Hún hefur einnig skrifað fræðigreinar. Árið 2006, þegar hún var 35 ára gömul, veiktist hún af sjaldgæfum ólæknandi sjúkdómi sem leggst aðallega á lungu ungra kvenna (LAM) og lífslíkur hennar voru taldar 10 ár. Líf hennar breyttist skyndilega og varanlega. Þrátt fyrir það heldur hún áfram að kenna og telur sig að mörgu leyti heppna og lifa góðu lífi þrátt fyrir heilsubrestinn. Bókin er áhrifamikil persónuleg og heimspekileg íhugun um veikindi, sjúkdóma og dauða og leitar svara við ögrandi spurningum: Hvað eru veikindi? Eru þau líffræðileg vanstarfsemi, félagslegur stimpill eða eru veikindi einungis andstæða þess að vera heilbrigður? Hvernig breytist líf þess sem veikist, líkamlega, félagslega og tilfinningalega? Er hægt að líða vel og jafnvel vera hamingjusamur þrátt fyrir veikindi? Rit eins og það sem Carel sendir hér frá sér, flokkast undir svokallaða pathography (frásögn um sjúkdóma) en þar er fjallað um tengslin milli líkama og sálar í veikindum. Tilgangur Carel með þessari bók er að nota fræði­ og reynsluþekkingu sína til að auka skilning og bæta samskipti við þá sem eru veikir með því að varpa ljósi á reynsluheim sjúklinga. Til þess reynir hún að útskýra hugtökin veikindi og heilbrigði, eins og þau eru notuð í heilbrigðisfræðum, frá heimspekilegum sjónarhól. Hún telur fyrirbærafræði besta kostinn til að skoða huglæga reynslu sjúklinga. Illness: The cry of the flesh. Höfundur: Havi Carel. Útgefandi: Acumen, Stocksfield, 2008. ISBN: 978­1­ 84465­152­8. Bókin er 140 bls. Carel sýnir fram á hvað hugtök og málfar, sem notuð eru til að lýsa veikindum, geta verið óhentug og villandi. Allt of oft sé litið á veikindi sem líffræðilega starfstruflun án þess að tekið sé tillit til reynslu þess sem er veikur. Of lítill gaumur sé gefinn að áhrifum veikinda á einstaklinginn sjálfan og þeim tilfinningum sem þau leiða til, eins og hræðslu, brostinna vona, breytinga á lífsgildum og samskiptum við aðra. Hún sýnir lesandanum einnig að veikindi eru ekki einungis líkamlegt vandamál heldur ferill sem breytir lífi þeirra sem fyrir þeim verða. Sjálf segist hún hafa lært að lifa lífi sínu eins og hinn tvíhöfða Janus: vera ung en samt gömul, heilbrigð í útliti en samt veik, og hamingjusöm þrátt fyrir mikla depurð. Hún þurfti að endurskipuleggja og endurmeta allt sitt líf, líkamlega, andlega og félagslega. Höfundur telur að veiku fólki finnist oft að það sé hlutgert og firrt í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Þetta stafi af því að starfsfólk búi við mikið andlegt og líkamlegt álag í vinnunni og það orsaki að samskiptin við sjúklingana einkennist af ópersónulegum tæknilegum samræðum og höfnun. Hún telur að ekki sé tekist á við tilfinningar sjúklinganna. Auðveldara sé að ræða um það sem er líkamlega sýnilegt. Ef sjúklingi versnar er það „eðlilegur framgangur sjúkdóms“, verkir eru „einkenni“ en ótta og kvíða er ekki rætt um. Hún telur að það þurfi að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í samskiptum við veikt fólk. Hún nefnir mörg dæmi í bókinni sem eru umhugsunarverð fyrir heilbrigðisstarfsfólk og alla sem umgangast veikt fólk. Bókin er áhugaverð fyrir þá sem eru á einhvern hátt tengdir veikindum, þeim sem eru veikir eða eiga eftir að verða veikir, það er að segja alla. Bókin skiptist í 5 kafla: 1. Líkaminn í veikindum. 2. Félagslegt umhverfi veikinda. 3. Veikindi sem vangeta og heilbrigði í veikindum. 4. Óttinn við dauðann. 5. Að lifa í núinu. Allir kaflarnir eiga það sameiginlegt að heimspekilegar hugmyndir eru fléttaðar saman við frásagnir sem eru útskýrðar í fyrstu persónu. Þessi aðferð gerir það að verkum að bókin fær meira vægi og dýpt en verður ekki einungis þurrt fræðirit. Bókin er fljótlesin og sagan grípandi. Illness tilheyrir bókaflokk sem nefnist The Art of Living sem er ritstýrt af Mark Vernon. Bækurnar eru skrifaðar að mestu af heimspekingum og hafa að sögn ritstjóra þann tilgang að færa heimspeki til stærri hóps lesanda með það í huga að opna augu lesenda og hvetja þá til íhugunar um eigið líf. Meðal bóka í þessum flokki eru Wellbeing, Deception, Hunger, Work, Death, Middle Age, Sex, Forgiveness, Sport, Clothes og Science. Kolbrún Albertsdóttir er svæfingahjúkrunar­ fræð ingur, MSc, og vinnur á Landspítala við Hringbraut. Kolbrún Albertsdóttir, kolbrun@simnet.is BÓKARKYNNING ÁHRIFAMIKIL FRÁSÖGN HEIMSPEKINGS UM EIGIN VEIKINDI Farið hefur í vöxt að fræðimenn skrifi bækur þar sem þeir lýsa eigin veikindareynslu og fjalla jafnframt um veikindin á fræðilegan hátt. Hér er sagt frá einni slíkri bók.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.