Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 05.06.2001, Síða 13

Tímarit Máls og menningar - 05.06.2001, Síða 13
Áhugaverðar bækur listir annars staðar en á söfnum The Art of Money Stundum er sagt að listamenn eigi ekki að þurfa að hugsa um peninga. Hið rétta er að peningar væru ekki svipur hjá sjón án listamanna. Peningaseðlar eru nefnilega hannaðir af listamönnum eins og sjá má í bókinni Peningalist eða The Art of Money eftir David Standish. Standish hefur tekið saman sögu- legt og um leið myndrænt yfirlit seðlaskreytinga í heiminum. Hann flokkar seðlana eftir myndmáli þeirra og bendir á að myndirnar segi margt um hagi og hugarfar hverrar þjóðar og ekki síst um sjálfsmynd hennar. Standish skrifar um seðla sem sýna atvinnuvegi viðkomandi þjóðar, kóngafólk og aðra heiðursmenn, hetjur og almenning. „Svo eru sumir seðlar jafnvel kynþokkafullir,“ segir Standish og bendir á seðla með myndum af berbrjósta konum frá Frakklandi, Svasílandi og Cookeyjum. Og jú, Ísland er með í bókinni, í litlum flokki sem kallast „dægradvöl“ þar sem eru líka Afganistan, Mongólía og Fijieyjar. Afganir eru með furðulega hestaíþrótt á sínum seðlum, Mongólar sýna búferlaflutninga og Fijieyjar fiskveiðar að loknum heitum degi. Það er gamli tíkallinn sem er fulltrúi Íslands í bókinni, – bókaþjóðin setur baðstofulestur á peningana sína. Ljóst er að evrópskum peningalistaverkum mun fækka verulega á næstu árum þegar evran verður orðin allsráðandi. Bækur eins og The Art of Money varðveitir þau hins vegar áfram, rétt eins og gamla íslenska tíkallinn og þriggja dollara seðilinn frá Bahamaeyjum með myndinni af túristum í sólbaði á Paradísarströndinni. The Art of Money kom út hjá Chronicle books í San Fransisco árið 2000. Crossing over Where art and science meet Í tilefni af hringborðsumræðum Þorvarðar Árna- sonar um listir, vísindi og náttúru hér aftar í tímaritinu er rétt að benda á áhugaverða bók þar sem þessu þrennu er teflt saman. Crossing over er þriðja bókin sem vísindamaðurinn Stephen Jay Gould og listamaðurinn Rosamond Wolff Purcell vinna í sameiningu. (Þær fyrri eru Illuminations og Finders, Keepers.) Gould er prófessor í dýrafræði og jarðfræði við Harvardháskóla en Purcell er mynd- listarmaður og ljósmyndari í Boston. Bókin er byggð á ritgerðum Goulds um þróun dýralífs á jörðinni, – og þar með þróun mannsins. Hann kemur víða við, vitnar í listasögu og sagnfræði, kenningar nútíma- vísindamanna og fornra heimspekinga og jafnvel Biblíuna. Skrif hans eru ekki síður heimspekileg en af meiði raunvísindanna enda segist hann hugsa bókina sem jafnt hlutfall greina um verufræði og þekkingarfræði. Myndir Purcells vinna listilega með textanum og fullkomna þennan bræðing hugvísinda, raunvísinda og myndlistar. Crossing over kom út hjá Three Rivers Press í New York árið 2000. Smoke Gets in Your Eyes Fyrst minnst er á listræna hönnun jafn hvunndagslegra hluta og peningaseðla er ekki úr vegi að minnast á aðra hversdagshluti sem listamenn hafa hannað. Í bókinni Smoke gets in your eyes eftir Michael Thibodeau og Jana Martin er fjallað um hönnun vindlingaumbúða í heiminum. Thibodeau segir í inngangi bókar- innar að sígarettupakkar segi margt um menningu þeirrar þjóðar sem framleiðir þá og ekki síst um drauma hennar. Þannig beri sígarettur í hinni stríðshrjáðu Kambódíu heitin Luxury og Victory og að sama skapi megi finna óteljandi tegundir vindlinga í Kína, landi þar sem allir ganga í eins Maó-jökkum. Einn kafli bókarinnar fjallar um pólitík og áróður á vindlingapökkum því svo virðist sem þjóðernis- og stríðsáróður af ýmsu tagi hafi átt greiða leið á umbúðirnar í gegnum tíðina. Í bókinni eru sýndar tóbaksumbúðir sem áttu að skapa hetjur, stuðla að sigri í stríði eða hvetja til samstöðu. Pakkarnir utan um Bogatiri–sígaretturnar sovésku frá 1948 sýndu til dæmis þrjá hermenn reiðubúna að verjast innrás úr vestri. Michael Thibodeau er grafískur hönnuður í New York en Jana Martin er ritöfundur í Brooklyn. Áhugi þeirra á tóbaki er eingöngu faglegur því hvorugt þeirra reykir. Abbeville Press í Bandaríkjunum gaf bókina út. bls. 13 tmm júní 22x27 Ó 5.6.2001 19:56 Page 13

x

Tímarit Máls og menningar

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.