Tímarit Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar - 05.06.2001, Síða 56

Tímarit Máls og menningar - 05.06.2001, Síða 56
ekki ósvipuð því hvernig menn áttu sameiginlega menningu í fornöld. Það þarf ekki að útskýra þetta – ef maður spilar „Blowin' in the Wind“ í Beijing veit fólk hvað það er. Ég komst að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að láta sögupersónur mínar tilheyra þeim heimi og í bókinni er dregin upp allítarleg og yfirgripsmikil mynd af þeim heimi. Ef maður ætlar að skapa tilbúnar rokkstjörnur og segja að þær séu raunar mjög mikilvægar rokkstjörnur verður maður einhvern veginn að fá lesandann til að trúa því. Hvernig er rokksamningur gerður? Hvernig er rokkhljómleikaferðalag skipulagt, þessi einkennilega farandveröld? Það endaði með því að ég fór að búa til þann veruleika. Þú samdir líka þína eigin söngtexta og það gengur sá orðrómur að það hafi haft athyglisverðar afleiðingar. Já, hitt sem ég varð að gera – það verður ekki framhjá því komist – var að semja lögin. Ef maður ætlar að halda því fram að þetta sé raunveruleg hljómsveit, og mjög góð hljómsveit, felst aðaláhættan í því að segja: „Hérna eru textarnir!“ En málin hafa tekið óvænta stefnu – ég sendi vini míni mínum Bono, úr U2, bókina og spurði hann hvað honum fyndist. Og viti menn, hann er búinn að semja tvö lög. Hann sagði að annað þeirra væri eitt af fallegustu lögum sem þeir hefðu nokkurn tíma samið. Svo nú virðist vera til lag sem heitir The Ground Beneath Her Feet. Þetta er skáldsaga með titillagi. Þú hefur sagt að dýrkunin á fræga fólkinu nú á tímum komi í staðinn fyrir tilbeiðslu á eldri guðum. Á hvern hátt er þetta sambærilegt og hvað olli því að þú fórst að velta vöngum yfir ofurstjörnum nútímans? Á margan hátt minnir þessi nútímalega tilbeiðsla á fræga fólkinu á grísku guðina: það er ekki hægt að leita þar að fyrirmyndum; þetta fólk sýnir manni ekki hvernig á að hegða sér – raunar hagar það sér iðulega mjög illa; það er lítilmótlegt og andstyggilegt ... og mannlegt. Og það eina sem það biður um er að við dýrkum það. Fræga fólkið er afar sérstakt og mikilvægt og holt fyrirbæri – holt í þeim skilningi að það er hægt að hella næstum hverju sem er inn í það. Ég velti því fyrir mér hvernig það sé að baða sig í frægðarljóma sem er ótrúlega háskalegur. Við breytum fólki í tóm ílát og hellum þráhyggjuórum okkar í þau. Við þröngvum því í þessi hlutverk og upp á þessa stalla og í mörgum tilfellum ræður það ekki við það. Þetta er mjög hættulegt. Eða þá að við gröndum þeim eins og skylmingaþrælum, eins og um íþrótt með blóðsúthellingum væri að ræða. Víkjum að þemanu útlegð sem gegnir mikilvægu hlutverki í þessari skáldsögu. Mig langaði til að skrifa um það að fara burt – ekki um fyrirbærið útlegð, heldur um eitthvað sem er djúpstæðara: í öllum manneskjum eru tveir andstæðir kraftar að verki sem ég kalla heimakraft og burtkraft - draumurinn um rætur andspænis drauminum um rótleysi, hugmyndin um að tilheyra á móti hugmyndinni um að fara. Ég held að þessar tvær hugmyndir takist á innra með okkur öllum frá því að við erum börn. Við höfum náin tengsl við heimkynnin, en við þurfum að fara að heiman; það er í okkar innsta eðli. En samfélög okkar hafa þróast þannig að þar er litið afskaplega jákvætt á hugmyndina um að eiga heimkynni og rætur og að tilheyra, en hugmyndin um rótleysi og að fara og að tilheyra ekki er hins vegar litin hornauga. Og þetta er rétt varðandi heiminn eins og hann er nú, en er kannski ekki rétt varðandi innsta eðli okkar. Það sem er skilið útundan er sál okkar sem dreymir. Mig langaði til að skoða hugmyndina um fólk sem í eðli sínu tilheyrir ekki. Þessar þrjár manneskjur [Vína, Ormus, Rai] tilheyra „burt“ fremur en „heimkynnum.“ „Burt“ í þessari bók er Bombay, London og New York. Hvers vegna þessar borgir? Sú breyting sem verður á menningarsviðinu í skáldsögunni er sú að farið er frá þeim tíma þegar England var menningarmiðstöðin til tímans nú, þegar Bandaríkin eru það. Og það er horft á þetta frá þriðja horninu á þríhyrningnum – utangarðsmanni frá þriðja heiminum sem heldur inn í þessa menningarheima en gerir þá jafnframt að sínum og breytir þeim. Hvernig er að lifa í stórveldum af ólíku tagi? Mig langaði að skrifa um hugmyndina um stóru heimsborgina, hugmyndina um miðstöð heimsins. Bombay, London og New York – þessar þrjár stóru heimsborgir – eru á vissan hátt sami staðurinn í skáldsögunni. En að baki þeim er hugmyndin um miðju heimsveldisins, umgjörðina og jaðarinn. Viðtalið birtist upphaflega á opinberri vefsíðu tileinkaðri skáldsögunni. Árni Óskarsson þýddi. tmm júní 22x27 Ó 5.6.2001 19:59 Page 56

x

Tímarit Máls og menningar

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit Máls og menningar
https://timarit.is/publication/1109

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.