Tímarit Máls og menningar - 05.06.2001, Síða 59
finnur dýralæknir í fjölleikaferð (Dr Dolittle's
Circus), Dagfinnur dýralæknir og fuglaóperan
(Dr Dolittle's Caravan) og Dagfinnur dýralæknir
og dýragarðurinn (Dr Dolittle's Zoo). Nokkrar
bækur í viðbót komu út á ensku, þar á meðal
ein um ferð Dagfinns til tunglsins.
Hugh Lofting lést 27. september 1947, 61 árs
að aldri. Þegar Dagfinnur dýralæknir rataði að
lokum á íslensku var nýkomin á markað fokdýr
bandarísk bíómynd um hann þar sem Rex
Harrison lék Dagfinn og vinsældir hans voru þá
sem aldrei fyrr. Út komu myndabækur um
Dagfinn og tvær þeirra rötuðu á íslensku líka.
Bjartsýni hafði einkennt sjöunda áratuginn
og vinsælustu kvikmyndir voru þá miklar og
dýrar söngvamyndir, til að mynda þær sem
Julie Andrews lék í. Þegar kom að Dagfinni var
sú tíska á seinasta snúningi og vegur
myndarinnar varð minni en væntingar stóðu
til. Þó skírskotuðu bækurnar um Dagfinn dýra-
lækni á sinn hátt til hugmynda þessa tíma um
aukið samband við náttúruna og háværar
kröfur um frið á jörð.
Vísindamaðurinn í villimannalandinu
Kjarni sagnanna um Dagfinn dýralækni er
tungumálanám hans. Dagfinnur uppgötvar að
dýrin hafa eigið mál, lærir það og verður
dýralæknir. Þannig kemur hann á sambandi við
dýrin og kemst að því að víða er pottur brotinn
í skiptum manna og dýra. Dýralæknisstarfið
reynist víðtækara en læknisstörf almennt;
Dagfinnur verður samfélagslæknir og messías
dýranna. Hann neyðist til þess að vera leiðtogi
þeirra og berjast fyrir nýju samfélagi þar sem
dýr og menn lifi í sátt og samlyndi í stað þess
að menn kúgi dýrin og arðræni eins og raunin
er í samfélagi hans.
Þegar Dagfinnur lærir tungu dýranna sér
hann í tvo heima, mannheim og dýrheim. Í
sögunum er til einföldunar litið á dýrin sem
heild. Jafn ólík dýr og api, hundur, grís og önd
geta ræðst við án teljandi erfiðleika og raunar
skilja dýrin einnig flest það sem gerist í
mannheimi. Í ljósi þess hve miklu máli
tungumálið skiptir í þessari sögu sætir
nokkurri furðu að hundur, grís, önd og api eigi
aldrei í vandræðum með að skilja hvert annað.
Eiga dýrin mörg mál eða aðeins eitt? En sagan
um Dagfinn er táknsaga. Dýrin mynda eina
heild og menn aðra, kúgara og hina kúguðu.
Það eru fyrst og fremst mennirnir sem skilja
ekki dýrin og sá er vandinn sem Dagfinnur þarf
að eiga við. Yfirstéttin skilur ekki
hina kúguðu og trúir því ekki einu sinni að þeir
hafi mál.
Jöfnuður milli tegunda er boðskapur
sagnanna. Bækurnar um Dagfinn boða tegund
útópísks sósíalisma. Hlutverk Dagfinns er að
hjálpa dýrunum að verða eins og menn, á svipaðan
hátt og síðar átti að hjálpa vanþróuðum ríkjum að
taka upp háttu hinna þróuðu. Með aðstoð Dagfinns
taka dýrin upp ritmál og stafróf, póstþjónustu, setja
á svið leikþætti
og óperur, stofna félög og banka, dvalarheimili og
jafnvel borg. Þannig geta dýrin náð jöfnum hlut við
manninn með því að læra mannasiði.
Útópía bókarinnar felst í Dagfinni sjálfum. Hann
er læknirinn göfugi sem helgar líf sitt góðum
málstað – samfélagslæknir eins og Zola og fleiri
hugsjónamenn 19. aldar. Þá trúðu menn því að í
vísindunum væri fólgin lækning hvers samfélags-
vanda. Dagfinnur er einnig ákveðin manngerð sem
alkunn var á Englandi á 19. öld, baráttumaður og
fræðimaður sem engan áhuga hefur á öðru en
hugsjón sinni en jafnframt stilltur Englendingur sem
bregður sér ekki við þó að honum sé kastað í
fangelsi eða þótt hann lendi í sjávarháska.
Í stuttu máli er Dagfinnur hetja hins pósitívíska
tíðaranda aldamótanna. Hann er fulltrúi evrópskrar
þekkingar, vísindamaðurinn sem menningarhetja
sem berst fyrir framförum og menntun. Í ævintýrum
bókanna vinnur hann hvern sigurinn á fætur öðrum,
verður hvað eftir annað ríkur og frægur, dáður af
þeim smáu en virtur af þeim stóru og sannfærir
fjöldann um að dýrin hafi mál. Í lífi hans er samúðin
með dýrunum leiðarhnoðan og öllum fjármunum
sem safnast á hendur hans eyðir hann jafnan í góð
málefni.
bls. 59
tmm júní 22x27 Ó 5.6.2001 19:59 Page 59